Innlent

Deilan leysist ekki á næstunni

Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, segist ekki of bjartsýn á að kjaradeila félagsins við sveitarfélögin verði leyst á næstunni. Fulltrúar leikskólakennara og launanefndar sveitarfélaga voru á fundi með ríkissáttasemjara í morgun.  Fulltrúar leikskólakennara og viðsemjendur þeirra voru boðaðir á fund hjá Ásmundi Stefánssyni ríkissáttasemjara klukkan ellefu í morgun og lauk þeim fundi um klukkan hálftólf. Samningamenn fóru yfir stöðuna í kjaradeilunni og var ákveðið að boða til tveggja nýrra sáttafunda, á miðvikudag og föstudag. Samningaviðræðum Félags leikskólakennara og launanefndar sveitarfélaganna var slitið síðastliðið föstudagskvöld og var kjaradeilunni í kjölfarið skotið til ríkissáttasemjara. Björg Bjarnadóttir, formaður Félags leikskólakennara, segir að strandað hafi á launakröfunni. Miðað við aðra háskólamenntaða hópa hafi tilboð launanefndarinnar á fundinum á föstudaginn ekki komið nægilega til móts við kröfur kennaranna. Björg vill ekki segja hvað fólst í því tilboði að svo stöddu. Hún kveðst ekki ýkja bjartsýn á að deilan leysist á næstunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×