Innlent

Fullkomið hljóðkerfi í Egilsbúð

Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað afhenti í gær Norðfirðingum að gjöf fullkomið hljóðkerfi. Hljóðkerfið hefur verið sett upp í Egilsbúð og notað þar undanfarnar vikur og segir Guðmundur Rafnkell Gíslason, veitingamaður í Egilsbúð, að sennilega sé þetta eitt besta hljóðkerfið á landinu. Hljóðkerfið er allt tölvustýrt og hægt er að geyma allt að 90 hljóðblandanir. Það var Kristinn V. Jóhannsson, framkvæmdastjóri SÚN, sem afhenti Smára Geirssyni, forseta bæjarstjórnar Fjarðabyggðar, kerfið með gjafabréfi. Við þetta tækifæri sagði Kristinn meðal annars að þar sem Samvinnufélag útgerðarmanna næði aðeins yfir Neskaupstað þá tilheyrði þessi gjöf, sem og aðrar gjafir sem SÚN hefur verið að úthluta að undanförnu, Neskaupstað þótt vissulega nytu fleiri góðs af þeim. SÚN hefur stutt myndarlega við ýmis félags-, safnaðar- og líknarstörf, sem og æskulýðs- og íþróttastarf. Nýlega gaf fyrirtækið Hollvinasamtökum Fjóðrungssjúkrahússins veglega peningagjöf, fyrir ári voru gefin líkamsræktartæki til að nota í nýju sundlaugarbyggingunni, það styrkti Hestamannafélagið Blæ um hálfa milljón til uppbyggingar á nýjum skeiðvelli og áfram má telja.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×