Erlent

Hermönnum fjölgað um tólf þúsund

Að minnsta kosti sextán létust og tugir manna slösuðust þegar tvær öflugar bílasprengjur sprungu í Bagdad, höfuðborg Íraks, í morgun. Bandarísk hernaðaryfirvöld stefna nú að því fjölga í hersetuliði sínu um tólf þúsund til að tryggja ástandið. Þá verða 150 þúsund bandarískir hermenn við störf í Írak. Þetta er annað sprengjutilræðið á jafn mörgum dögum í höfuðborg landsins. Svo virðist sem tveimur sprengjum hafi verið komið fyrir við lögreglustöð í nágrenni við græna svæðið svokallaða þar sem höfuðstöðvar bráðabirgðastjórnarinnar og erlend sendiráð eru til húsa. Gríðarlegri öryggisgæslu er haldið uppi á svæðinu. Sjónarvottar segja mikinn svartan reykjarmökk hafa lagst yfir miðborgina í kjölfar sprenginganna sem voru það öflugar að þær hreyfðu við byggingum í hundruð metra fjarlægð. Talið er að flestir hinna látnu hafi verið írakskir lögreglumenn. Í árásinni í gær dóu sextán. Vestanhafs hafa yfirmenn í Pentagon undanfarið reynt að sannfæra bandarísku þjóðina um nauðsyn þess að fjölga bandarískum hermönnum í Írak til að tryggja ástandið fyrir kosningarnar sem fram eiga að fara í næsta mánuði. Gert er ráð fyrir að 150 þúsund bandarískir hermenn verði þá að störfum í landinu. Þeir hafa þá aldrei verið fleiri, ekki einu sinni þegar innrásin var gerð í landið í mars árið 2003. Flutningarnir eru hafnir. Til dæmis hafa 200 herlögreglumenn í Kenturcky-ríki kvatt fjölskyldur sínar og haldið áleiðis til Íraks og sömu sögu er að segja í Madison-ríki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×