Skipt um dekk
Að skipta um dekk á bíl er ekki flókið mál og ætti ekki að vefjast fyrir neinum. Þeir eru þó margir sem kunna ekki þessa list og sumir sem nenna ekki einu sinni að læra það. Að skipta um dekk í urrandi umferð og grenjandi rigningu er líka óstjórnlega leiðinlegt, ekki síst ef fólk er ekki klætt til að standa í stórræðum. Þeir hjá Gúmmívinnustofunni á Réttarhálsi víla þó ekki fyrir sér að aðstoða fólk í dekkjanauð. Hægt er að hringja í þá og þeir koma um hæl, skipta um dekkið og taka sprungna dekkið með sér til að gera við það. "Það eru sko hreint ekki bara konur sem biðja um aðstoð," segir Sigurður Ævarsson, verkstjóri hjá Gúmmívinnustofunni. "Það eru ekki síður karlmenn og þetta er fólk á öllum aldri. Við bjóðum líka upp á að koma með loftkút og skjóta í dekkið þannig að fólk komist að minnsta kosti á næstu bensínstöð eða verkstæði. Þjónustan ef skipt er um dekk kostar 1.890 krónur." Benedikt og Sigurjón Ingi hjá Gúmmívinnustofunni brugðust snarlega við þegar sprakk hjá blaðamanni í vikunni.