Erlent

Ísöld innan 100 ára

Sænskur jarðeðlisfræðingur segir að lítils háttar ísöld kunni að skella á hér á landi á þessari öld samkvæmt reglubundnum veðurfarsbreytingum sem rekja megi til sólarinnar. Hann vísar á bug kenningum um mikla hækkun sjávar vegna bráðnunar jökla og segir menn hafa óþarfaáhyggjur. Nils Axel Mörner, jarðeðlisfræðingur og sérfræðingur í málefnum hafsins, starfar við háskólann í Stokkhólmi en hann kom til Íslands til að halda erindi á fundi Félags íslenskra veðurfræðinga. Hann segir það fjarstæðu hjá vísindamönnum að segja að allt að eins metra hækkun kunni að verða á yfirborði sjávar vegna bráðnunar jökla og hafnar því að stór landsvæði kunni að fara á kaf í sjó af þeim sökum, þar sem einungis megi búast  við sáralítilli hækkun sjávar. Mörner telur sólina mikinn áhrifaþátt í þessu sambandi og segir að róttækar veðurfarsbreytingar verði með reglubundnu millibili. Merki séu um að þrjár litlar ísaldir hafi orðið á undanförnum 600 árum: á 15. öld, við lok 17. aldar og á 19. öld. Hann segir þetta gott fyrir fiskinn í sjónum en hætt sé við að það verði kalt að búa á Íslandi þegar næsta „litla ísöld“ skelli á og ísjakar verði algengir hér við land.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×