Innlent

Forstjórarnir sæti ábyrgð

Allur þorri almennings telur að forstjórar olíufélaganna eigi að svara til saka fyrir þátt sinn í verðsamráðunum samkvæmt könnun Fréttablaðsins sem gerð var í gær. 99 prósent þeirra sem svöruðu álíta að draga eigi forstjórana til ábyrgðar, aðeins eitt prósent var því ósammála. Úrtakið í könnuninni var 800 manns. Það skiptist jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var: Eiga stjórnendur olíufélaganna að svara til saka vegna verðsamráðanna? 97,6 prósent svöruðu spurningunni sem er óvenjulega hátt svarhlutfall. Ketill Magnússon viðskiptasiðfræðingur segir að í raun sé ekki hægt að túlka könnunina nema á einn hátt. "Dómur samfélagsins er mjög skýr. Það er það eina sem hægt er að segja um þetta." Hann bætir þó við að augjóst sé að fólk sé almennt mjög meðvitað um stöðuna. "Skýrsla Samkeppnisstofnunar er mjög skýr og enginn hefur dregið framsetningu hennar í efa. Fólki finnst blasa við að fyrir liggi nægilegar sannanir til að sakfella þessa einstaklinga," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×