Erlent

Grátbiður um hjálp

Margaret Hassan, sem situr í haldi mannræningja í Írak, grátbiður bresk stjórnvöld að kalla hersveitir sínar heim frá Írak á myndbandsupptöku sem arabísk sjónvarpsstöð sýndi í dag. Margaret Hassan er yfirmaður mannúðarsamtakanna CARE og hefur búið í Írak í þrjátíu ár. Hún þekkir þar mjög vel til og lítur á sig sem Íraka, þó að hún sé upphaflega írsk. Mannræningjar rændu henni í Bagdad á þriðjudaginn var. Í dag birti sjónvarpsstöðin al-Jazeera myndbandsupptöku þar sem Margaret Hassan biður sér griða. Hún segir þetta geta verið síðustu stundirnar í lífi sínu og ákallar bresku þjóðina um að biðja Tony Blair forsætisráðherra að kalla bresku hersveitirnar frá Írak í stða þess að bæta við herliðið. „Þess vegna er fólki eins og Bigley og mér rænt.,“ segir Hassan og vísar þar til breska gíslsins Kenneths Bigleys sem tekinn var af lífi á dögunum. „Ef til vill dey ég eins og herra Bigley. Ég grátbið ykkur. Ég grátbið ykkur,“ segir Hassan um leið og hún brestur í grát.   Í gær ákváðu bresk stjórnvöld að verða við beiðni Bandaríkjastjórnar um að senda sérsveitir til starfa í Bagdad.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×