Innlent

Nálgast samkomulag um sorp

Heldur hefur þokast í átt til samkomulags milli sveitarstjórnar Ölfuss og stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands, að sögn Hjörleifs Brynjólfssonar oddvita sveitarstjórnar Ölfuss. "Við höfum átt í viðræðum við stjórn sorpstöðvarinnar," sagði Hjörleifur. "Málið stendur þannig núna að þessu hefur frekar miðað. Menn hafa átt í ágætis viðræðum. Þeim er kannski ekki alveg lokið, en eru í gangi." Sveitarstjórn Ölfuss, sem hefur skipulagsvald á svæðinu tilkynnti fulltrúum aðildarsveitarfélaganna fyrir skömmu, að stöðinni yrði lokað 25. október ef ekki hefði náðst samkomulag um úrbætur samkvæmt deiliskipulagi. Þá tilkynnti sveitarstjórnin, að innheimta dagsekta yrði jafnframt hafin, en þær næmu nú ríflega 40 milljónum króna. Deilan snýst um hæð sorpfjallsins, sem sagt er orðið 3 - 7 metrum of hátt. Hjörleifur kvaðst ekki vilja tjá sig um hvaða lausnir væru á borðinu. Aðildarsveitarfélögunum yrði kynnt samkomulagið, þegar það lægi fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×