Erlent

Herinn rukkaði særðan hermann

Tyson Johnson III lá enn þá á sjúkrahúsi þar sem hann var að jafna sig af sárum sem hann hlaut í Írak þegar honum barst bréf frá hernum þar sem hann var rukkaður um andvirði tæpra 200 þúsund króna. Upphæðin var sú sama og skráningarbónus sem hann fékk fyrir að skuldbinda sig til þriggja ára herþjónustu. Meiðsl Johnsons voru það alvarleg að hann varð að hætta í hernum áður en árin þrjú voru liðin. Í kjölfar þess var hann rukkaður um skráningarbónusinn. Það var ekki fyrr en fréttastofa ABC sjónvarpsstöðvarinnar fór í málið að herinn hætti við innheimtuna. Franklin Hagenbeck, hershöfðingi og yfirmaður starfsmannamála í hernum, sagði að einhver óþekktur skriffinni hefði gert mistök. "Þetta er algjörlega óþolandi. Ég trúi því varla þegar ég heyri af svona löguðu. Ég trúi ekki að þetta geti gerst. Við látum þetta ekki gerast," sagði hann. Að sögn ABC hefur varnarmálaráðuneytið lofað því að skoða mál fleiri slasaðra hermanna sem hafa lent í svipuðum atvikum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×