Innlent

78 milljarða fram úr fjárlögum

Afkoma ríkisins í tíð Geirs H. Haarde fjármálaráðherra er rúmum 78 milljörðum króna verri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Ríkissjóður hefur því farið fram úr fjárlögum á tímabilinu 1998 til 2003 sem því nemur. Að meðaltali er því afkoma ríkissjóðs rúmum 13 milljörðum króna lægri á ári en samþykkt hafði verið í fjárlögum. Fjármálaráðherra kynnti fjárlagafrumvarpið 2005 í gær. Þar var gert ráð fyrir 11,2 milljarða króna tekjuafgangi. Ef halli fjárlaga verður á borð við meðaltal undanfarinna sex ára, má því gera ráð fyrir 1,8 milljarða króna fjárlagahalla á næsta ári. Munurinn var mestur 2002 er fjárlögin gerðu ráð fyrir tæplega 19 milljarða króna tekjuafgangi. Samkvæmt ríkisreikningi fyrir sama ár var tekjuhallinn hins vegar rúmir 8 milljarðar. Munurinn á samþykktum fjárlögum og endanlegri afkomu ríkissjóðs nam því tæpum 27 milljörðum 2002. Eina skiptið sem ríkissjóður skilaði meiri tekjuafgangi en gert var ráð fyrir var 1999 þegar tekjuafgangurinn var rúmum 21 milljarði króna meiri en fjárlög höfðu gert ráð fyrir. Útgjöld ríkisins samkvæmt ríkisreikningi hækkuðu um rúma 46 milljarða á tímabilinu, ef miðað er við núgildandi verðlag, eða um 7,6 milljarða að meðaltali á ári. Uppreiknuð útgjöld ársins 1998 voru um 244 milljarðar að núgildi en um 290 milljarðar í fyrra, þrátt fyrir markmið ríkisstjórnarinnar um að draga úr útgjöldum ríkisins, líkt og fram kemur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Fjármálaráðherra sagði við kynningu frumvarpsins í gær að útgjöld stæðu í stað að raungildi á næsta ári en lækkuðu sem hlutfall af landsframleiðslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×