Erlent

Tveir bandarískir gíslar aflífaðir

Myndband sem sýnir þegar írakskir öfgamenn taka bandarískan gísl af lífi var í dag birt á Netinu. Mennirnir hótuðu í morgun að drepa tvo aðra gísla innan sólarhrings og létu verða af því að drepa annan þeirra rétt fyrir fréttir, samkvæmt arabísku sjónvarpsstöðinni Al Jazeera. Myndbandið er níu mínútur að lengd og sýnir Bandaríkjamanninun Eugene Armstrong sitja með bundið fyrir augun og róa snöktandi fram í gráðið fyrir framan mannræningja sína. Undir lokin stígur einn mannræningjanna svo fram með hníf í hönd og sker höfuðið af Armstrong. Armstrong var ásamt tveimur félögum sínum, öðrum Bandaríkjamanni og einum Breta, rænt af heimili þeirra í Bagdad í síðustu viku. Allir þrír unnu hjá byggingaverktaka í borginni. Það er öfgahópur með náin tengsl við al-Kaída leiðtogann Abu Musab al-Zarqawi sem rændi mönnunum og talið er að það hafi verið al-Zarqawi sjálfur sem tók Armstrong af lífi. Hópurinn hótaði í morgun að taka hina tvo gíslana af lífi innan sólarhrings, yrði ekki orðið við kröfum þeirra sem virðast vera að kvenföngum í haldi Bandaríkjahers verði sleppt. Talið er að meðal annars sé átt við hátt setta samstarfskonu Saddams Hússeins, vísindamann sem fékk viðurnefnið „Doktor Sýkill“ vegna meintra starfa hennar við gereyðingavopnaframleiðslu. Ættingjar Ken Bigleys, breska gíslsins, þrábiðja bresk yfirvöld að bjarga honum. Blair er sagður hafa rætt við fjölskylduna en stefna breskra og bandarískra yfirvalda er sem fyrr að ekki verði samið við öfgamenn, hvorki mannræningja né hryðjuverkamenn. Blair segir að svar Breta megi ekki vera að gefa eftir heldur að vera fastir fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×