Innlent

Hundur gerði húsráðanda viðvart

Bruni varð í einbýlishúsi á Tálknafirði í fyrrinótt og mátti litlu muna að húsið yrði alelda. Heimilishundur lét húsráðanda vita um eldinn. Eldurinn er talinn hafa kviknað út frá kerti í stofu hússins. Húsráðandi var staddur við tölvuvinnu í einu herbergi hússins þegar hundurinn á heimilinu varð mikið órólegur. Húsráðandi fór því fram og sá hvar eldur logaði í gardínum og fór því út úr húsinu og lokaði öllum hurðum og gluggum sem bjargaði miklu um að ekki fór verr. Mikill hiti var í húsinu sem var fullt af reyk og sóti þegar slökkviliðið á Tálknafirði og lögregla komu á staðinn rétt fyrir klukkan tvö um nóttina. Eldurinn var þá að mestu slokknaður af sjálfsdáðum en slökkva þurfti glóð í stofuborði og stólum. Húsið skemmdist mikið í eldsvoðanum og til marks um hitann í húsinu voru rúður byrjaðar að springa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×