Erlent

Blóðug átök í Sadr-borg

Blóðug átök hafa kostað á fjórða tug manna lífið í fátækrahverfinu Sadr-borg í Írak undanfarinn sólarhring. Hundrað og sjötíu Írakar hafa særst í átökunum. Einn bandarískur hermaður liggur í valnum og nokkrir eru sárir. Sadr-borg er fátækrahverfi í norð-austurhluta Bagdad-borgar og þar er mikið um stuðningsmenn harðlínuklerksins Muqtada al-Sadrs. Hermt er að fjöldi bardagamanna hans sé kominn þangað frá borginni Najaf þar sem hörð átök geisuðu þar til fyrir skömmu. Fimmtán Írakar fórust í átökum í Sadr-borg í morgun; þaðan berst sprengignýr og byssugelt. Orustuþotur sáust á flugi yfir hverfinu. Talsmaður al-Sadrs sagði við fréttamann BBC að átökin væru bandarískum hersveitum að kenna þar sem þær hefðu gert innrás í hverfið. Átök hafa staðið á milli hersetuliðsins og manna al-Sadrs í hverfinu af og til frá því í apríl og þó að friðarsamningar hafi verið gerðið í ágúst halda skærur áfram. Myndin er tekin í Sadr-borg í morgun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×