Erlent

Loftið í Najaf lævi blandið

Loftið í Najaf er lævi blandið eftir að friðarsamkomulag náðist í nótt. Bardagamenn hafa yfirgefið helga mosku þar en undir niðri kraumar tortryggni og óvissa.  Mehdi-sveitir Muqtada al-Sadrs yfirgáfu Imam Ali moskuna og lögðu niður vopn eftir að friðarsamkomulag náðist. Í staðinn eiga hersveitir Bandaríkjanna að hverfa frá Najaf og Kúfa. Fögnuður braust út í borginni þó að orð talsmanns al-Sadrs, sjeiks Ahmed Shaybani, gefi tilefni til efasemda. Hann segir Mehdi-sveitirnar hafa yfirgefið Najaf og lagt niður vopn en þær hafi ekki verið leystar upp eins og yfirvöld hafi viljað. Hver bardagamaður hafi snúið heim til síns héraðs og helgidómurinn hafi verið falinn í umsjá al-Sistanis. Því sé nú komið á eðlilegt ástand fyrir tilstilli guðs. Enginn veit hvað al-Sadr og menn hans hafa nú hugsað sér og hvert hlutverk þeirra í stjórnskipan landsins verður. Al-Sadr þarf ekki að óttast fangelsun en hann var eftirlýstur fyrir morð. Samkvæmt friðasamkomulaginu hlýtur hann friðhelgi. Sumir Írakar óttast að al-Sadr og Mehdi hersveitirnar hafi í raun aðeins viljað losna úr sjálfheldu í moskunni, safna kröftum, birgðum og skotfærum, og halda áfram vopnaðri mótspyrnu við herlið Bandaríkjanna og stjórnvöld í landinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×