Erlent

Mikil spenna í Najaf

Mikil spenna ríkir í Najaf í Írak eftir að harðlínuklerkurinn Muqtada al Sadr neitaði að eiga fund með sendinefnd írakskra stjórnmála- og trúarleiðtoga í gær. Átta fulltrúar frá þjóðarráði Íraks ætluðu að reyna að miðla málum á milli al-Sadrs og Mehdi-hers hans annars vegar, og írakskra og bandarískra hersveita hins vegar, en undanfarinn hálfan mánuð hafa bardagar staðið þeirra á milli í Najaf. Til að búa bandaríska hermenn betur undir borgar- og skæruhernað eins og í Najaf er nú hermt að ísraelski herinn þjálfi þá á leynilegum stað í Ísrael. Dagblaðið Jerusalem Post greinir frá þessu í dag. Breskur hermaður féll og annar særðist í átökum við írakskar skæruliðasveitir í suðurhluta Íraks, skammt frá Basra, í gær. Talið er að skæruliðarnir þar séu hliðhollir Muqtada al-Sadr. Myndin er af bandarískum hermönnum í Najaf í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×