Erlent

Enn barist í Najaf

Enn er barist að hluta til á götum borgarinnar Najaf í Írak en að sögn talsmanna bandaríska hersins hefur þeim tekist að einangra uppreisnarmennina og halda þeim í skefjum. Vígamenn gerðu árás á lögreglustöð í borginni í gærkvöldi og í kjölfarið brutust út átök milli lögreglunnar og uppreisnarmanna. Lögreglan neyddist til að kalla til írakska herinn en hann hafði ekki undan og var óskað eftir aðstoð frá Bandaríkjaher. Ástandið var á tímabili svo slæmt að kalla þurfti til bandarískar herþyrlur til að gera árásir úr lofti. Ein bandarísk þyrla var skotin niður en hún var að flytja særðan hermann frá átökunum sem fór að mestu leyti fram í gamla miðbæ Najaf. Þrír hermenn í þyrlunni særðust og voru þeir fluttir burt. Tölur látinna eru enn á reiki en nokkrir írakskir hermenn og uppreisnarmenn létu lífið í bardaganum. Uppreisnarmennirnir eru fylgismenn írakska klerksins Moqtada al-Sadr og er óttast að vopnahlé milli hermanna og fylkingu Moqtada frá því í júní sé úti. Talsmaður Moqtada kenndi írakska og bandaríska hernum um atvikið og sagði þá hafa átt upptökin. Mikil reiði er í borginni því mikilvæg moska varð fyrir skemmdum í átökunum. Gjallarhorn á moskunni hvöttu almenning til að rísa gegn herliðinu vegna skemmdanna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×