Á betri enda keðjunnar 3. ágúst 2004 00:01 Ég man ekki eftir að öfunda nema tvo menn af vinnunni þeirra. Öðrum manninum var borgað stórfé fyrir að hugsa. Ekki var til annars ætlast af honum en að hann gerði mönnum viðvart þegar honum datt eitthvað sniðugt í hug. Þessi maður kemur raunar ekki meira hér við sögu. Hinn maðurinn, blaðamaður að atvinnu, hafði þann starfa sumarlangt að ferðast um Evrópu í leit að besta kaffibolla í heimi. Hann tók sér góðan tíma til ferðalaga um Frakkland, Spán og Austurríki en auðvitað fór mestur tími í vettvangsrannsóknir á Ítalíu. Sjálfur hef ég löngum haldið því fram að kaffið á venjulegri ítalskri bensínstöð sé betra en kaffið á flestum fimm stjörnu hótelum um norðanverða álfuna. Svo fór líka að maðurinn fann besta kaffibolla í heimi á veitingastað á Ítalíu. Þetta var í borginni Tríest austast á Norður-Ítalíu. Ég var búinn að gleyma nafninu á veitingastaðnum þegar ég átti leið um Tríest núna um daginn. Mig rámaði í eitthvert nafn, en það reyndist ekkert hjálplegra en að muna suma tölustafina í símanúmeri. Leitin að kaffinu góða í þessari sérstæðu og undarlega melankólísku borg stóð því lengi dags og hafði það helst í för með sér að um nóttina lá ég andvaka og með brjóstsviða. Það var erfitt að hugsa um nokkuð annað en kaffi þessa nótt, enda fann ég fyrir þeim drykk í hálsinum með reglulegu millibili. Í stað þess að telja kaffibaunir reyndi ég að beina hugsuninni inná sem syfjulegastar brautir og þá urðu auðvitað fyrst fyrir dagleg viðfangsefni á skrifstofunni. Og þar var svo sem af nógu að taka. Eitt er að alþjóðleg viðskipti með kaffi eru orðin svo mikil að þau eru meiri en viðskipti með nokkra aðra hrávöru, að olíu undanskilinni. Annað er sú undarlega staðreynd að sigurför kaffisins um víða veröld á síðustu árum hefur verið leidd af þjóð sem þar til fyrir skemmstu bjó til versta kaffi í heimi. Engar alþjóðlegar keðjur eru til af ítölskum kaffihúsum en í hundrað löndum og þúsund borgum heimsins má hins vegar finna bandarísk kaffihús eins og Starbucks. Þetta minnir á þau sannindi um atvinnulíf samtímans að snilli við markaðssetningu er oft ábatasamari en þekking á framleiðslu. Það var hins vegar annað með þessi kaffiviðskipti sem reyndist áleitnara. Þegar menn kaupa sér kaffibolla á Íslandi geta þeir búist við að framleiðendur kaffisins fái í sinn hlut innan við eina krónu af þeim þrjúhundruð krónum sem þeir greiða fyrir bollann. Upphæðin sem fer í að borga fyrir sjálft kaffið er svo lítil að eftir afnám auranna ræður íslenskur búðarkassi ekki við hana. Ef menn kaupa kaffipakka úti í búð mega þeir reikna með að innan við tuttugasti hlutinn af verðinu endi hjá framleiðendum kaffisins. Þá er ég að tala um fólkið sem á akrana, ræktar kaffið, tínir baunirnar, sorterar þær, flytur og pakkar þeim í sekki. Kaffið hefur farið slíka sigurför um heiminn á síðustu árum að víðast hvar á jörðinni geta menn nú setið á góðum kaffihúsum, valið eftir smekk á milli úrvalstegunda af kaffi frá ólíkustu heimshornum og rætt sín á milli með notalegum yfirlætissvip um muninn á eþíópísku Yrgacheffe og Bláfjallakaffi frá Jamaica. Engu að síður lifa flestir þeirra sem koma nálægt ræktun á kaffi tvísýnu lífi í hreinni örbirgð og stundum röngu megin við hungurmörkin. Og ástandið fer versnandi. Hungur og skelfing ríkir í kringum kaffiplantekrur í Suður-Ameríku, Afríku og sums staðar í Asíu. Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að meira er framleitt af kaffi en heimsbyggðin drekkur. Fæstir þeirra sem rækta kaffi geta heldur fundið landi sínu ábatasamara hlutverk. Verð á hráefnum, ekki síst matvöru, hefur farið lækkandi um langt skeið, þótt vaxandi eftirspurn frá Kína hafi nú hleypt lífi í markaði fyrir nokkrar tegundir af hrávöru. Fátt er til ráða fyrir kaffibændur, kvótakerfi og verðsamráð hafa virkað illa og stórfyrirtækin sem kaupa kaffið ráða verðinu vegna offramleiðslu. Við gerum bændunum örugglega ekki greiða með því að hætta að drekka kaffi eða með því að heimta hindranir í milliríkjaviðskiptum. Við getum leitað að kaffi frá litlum framleiðendum sem borga smábændum viðunandi verð en engin lausn er einföld. Við megum hins vegar oftar muna það undarlega lán, sem sem skilaði okkur, hrávöruframleiðendum við ysta haf, á betri enda viðskiptakeðjunnar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Jón Ormur Halldórsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Heilbrigðiskerfið logar og er að hrynja: Þú áttir betra skilið Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Lenda menn í fangelsi eftir misheppnaða skólagöngu? Elinóra Inga Sigurðardóttir Skoðun Litlu fyrirtækin – kerfishyggja og skattlagning Eiríkur S. Svavarsson Skoðun Reiknileikni Sambandsins Ragnar Þór Pétursson Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun
Ég man ekki eftir að öfunda nema tvo menn af vinnunni þeirra. Öðrum manninum var borgað stórfé fyrir að hugsa. Ekki var til annars ætlast af honum en að hann gerði mönnum viðvart þegar honum datt eitthvað sniðugt í hug. Þessi maður kemur raunar ekki meira hér við sögu. Hinn maðurinn, blaðamaður að atvinnu, hafði þann starfa sumarlangt að ferðast um Evrópu í leit að besta kaffibolla í heimi. Hann tók sér góðan tíma til ferðalaga um Frakkland, Spán og Austurríki en auðvitað fór mestur tími í vettvangsrannsóknir á Ítalíu. Sjálfur hef ég löngum haldið því fram að kaffið á venjulegri ítalskri bensínstöð sé betra en kaffið á flestum fimm stjörnu hótelum um norðanverða álfuna. Svo fór líka að maðurinn fann besta kaffibolla í heimi á veitingastað á Ítalíu. Þetta var í borginni Tríest austast á Norður-Ítalíu. Ég var búinn að gleyma nafninu á veitingastaðnum þegar ég átti leið um Tríest núna um daginn. Mig rámaði í eitthvert nafn, en það reyndist ekkert hjálplegra en að muna suma tölustafina í símanúmeri. Leitin að kaffinu góða í þessari sérstæðu og undarlega melankólísku borg stóð því lengi dags og hafði það helst í för með sér að um nóttina lá ég andvaka og með brjóstsviða. Það var erfitt að hugsa um nokkuð annað en kaffi þessa nótt, enda fann ég fyrir þeim drykk í hálsinum með reglulegu millibili. Í stað þess að telja kaffibaunir reyndi ég að beina hugsuninni inná sem syfjulegastar brautir og þá urðu auðvitað fyrst fyrir dagleg viðfangsefni á skrifstofunni. Og þar var svo sem af nógu að taka. Eitt er að alþjóðleg viðskipti með kaffi eru orðin svo mikil að þau eru meiri en viðskipti með nokkra aðra hrávöru, að olíu undanskilinni. Annað er sú undarlega staðreynd að sigurför kaffisins um víða veröld á síðustu árum hefur verið leidd af þjóð sem þar til fyrir skemmstu bjó til versta kaffi í heimi. Engar alþjóðlegar keðjur eru til af ítölskum kaffihúsum en í hundrað löndum og þúsund borgum heimsins má hins vegar finna bandarísk kaffihús eins og Starbucks. Þetta minnir á þau sannindi um atvinnulíf samtímans að snilli við markaðssetningu er oft ábatasamari en þekking á framleiðslu. Það var hins vegar annað með þessi kaffiviðskipti sem reyndist áleitnara. Þegar menn kaupa sér kaffibolla á Íslandi geta þeir búist við að framleiðendur kaffisins fái í sinn hlut innan við eina krónu af þeim þrjúhundruð krónum sem þeir greiða fyrir bollann. Upphæðin sem fer í að borga fyrir sjálft kaffið er svo lítil að eftir afnám auranna ræður íslenskur búðarkassi ekki við hana. Ef menn kaupa kaffipakka úti í búð mega þeir reikna með að innan við tuttugasti hlutinn af verðinu endi hjá framleiðendum kaffisins. Þá er ég að tala um fólkið sem á akrana, ræktar kaffið, tínir baunirnar, sorterar þær, flytur og pakkar þeim í sekki. Kaffið hefur farið slíka sigurför um heiminn á síðustu árum að víðast hvar á jörðinni geta menn nú setið á góðum kaffihúsum, valið eftir smekk á milli úrvalstegunda af kaffi frá ólíkustu heimshornum og rætt sín á milli með notalegum yfirlætissvip um muninn á eþíópísku Yrgacheffe og Bláfjallakaffi frá Jamaica. Engu að síður lifa flestir þeirra sem koma nálægt ræktun á kaffi tvísýnu lífi í hreinni örbirgð og stundum röngu megin við hungurmörkin. Og ástandið fer versnandi. Hungur og skelfing ríkir í kringum kaffiplantekrur í Suður-Ameríku, Afríku og sums staðar í Asíu. Ástæðan fyrir þessu er einfaldlega sú að meira er framleitt af kaffi en heimsbyggðin drekkur. Fæstir þeirra sem rækta kaffi geta heldur fundið landi sínu ábatasamara hlutverk. Verð á hráefnum, ekki síst matvöru, hefur farið lækkandi um langt skeið, þótt vaxandi eftirspurn frá Kína hafi nú hleypt lífi í markaði fyrir nokkrar tegundir af hrávöru. Fátt er til ráða fyrir kaffibændur, kvótakerfi og verðsamráð hafa virkað illa og stórfyrirtækin sem kaupa kaffið ráða verðinu vegna offramleiðslu. Við gerum bændunum örugglega ekki greiða með því að hætta að drekka kaffi eða með því að heimta hindranir í milliríkjaviðskiptum. Við getum leitað að kaffi frá litlum framleiðendum sem borga smábændum viðunandi verð en engin lausn er einföld. Við megum hins vegar oftar muna það undarlega lán, sem sem skilaði okkur, hrávöruframleiðendum við ysta haf, á betri enda viðskiptakeðjunnar.