Þingbundin stjórn 18. júní 2004 00:01 Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins er svo ráð fyrir gert að við búum við þingbundna stjórn, þ.e. stjórn, sem meirihluti þings annaðhvort styður eða er reiðubúinn að verja vantrausti. Þetta er merking orðsins þingræði og ekkert umfram það. Nú hefur svo æxlast til að landsmenn skipta þannig fylgi sínu milli stjórnmálaflokka að samsteypustjórnir eru meginregla um myndun ríkisstjórnar. Stjórnmálaflokkarnir ganga "óbundnir til kosninga" og kjósendur vita aldrei hvers konar stjórn kemur upp úr kjörkössunum eða í eftiráhrossakaupum milli flokkanna. Þeir geta aldrei lagt neikvæðan dóm á gerðir fráfarandi ríkisstjórnar og verið vissir um að með því uppskeri þeir ríkisstjórn annarra flokka, þ.e. efli stjórnarandstöðuna til valda. Kosningar í þessu landi eru líkari skoðanakönnunum en afdrifaríkri ákvörðun um skipan komandi stjórnar í landinu. Til skamms tíma voru stjórnmálaflokkarnir öðrum þræði málfundafélög. Þar voru mál lögð fyrir og prófuð - nærri grasrótinni. Að minnsta kosti þurfti að ræða þau í fulltrúaráðum og miðstjórnum og ná um þau víðtæku samkomulagi innan hvers aðildarflokks að stjórnarsamsteypunni. Á síðustu árum hefur hins vegar orðið æ sterkara foringjaræði innan flokkanna. Foringjarnir Halldór og Davíð hafa markað þá stefnu að flokkarnir séu eins og herlið á orrustuvelli: Annaðhvort ertu með í liðinu eða þú ert genginn í lið með andstæðingunum. Og það eru alráðir herforingjar sem stjórna liðinu. Þeir tveir ræða lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar sín á milli og tilkynna þingflokkum sínum að samkomulag hafi náðst. Þrautreynt sé að lengra verði ekki komist. Aðeins málamyndabreytingar megi gera frá samkomulagi þeirra. Fullkomin leynd hvílir yfir því hvað hvor þeirra lagði upp með og hvernig það upplegg breyttist í meðförum þeirra. Þingmenn standa frammi fyrir orðnum hlut og eru einungis spurðir: Ertu með okkur í liði, eða á móti? Það getur orðið einstökum þingmönnum dýrkeypt að láta sannfæringu sína þvælast fyrir sér og ganga gegn samkomulagi formannanna. Framavonir kunna að glatast. Þeir koma ekki lengur til álita í áhrifastöður. Margvíslegar sporslur kunna að gufa upp. Við þessar aðstæður geta áðurnefnd fyrirmæli stjórnarskrárinnar snúist upp í andhverfu sína og í stað þingbundinnar stjórnar sitjum við uppi með stjórnbundið þing. Þing sem hefur glatað virðingunni fyrir sjálfu sér, þing, sem lætur sér nægja það hlutverk að stimpla með lögformlegum hætti hvaðeina sem kemur frá flokksformönnunum. Þetta höfum við horft upp á hvað eftir annað að undanförnu. Sumir hafa kallað þetta ráðherraræði. Réttnefni væri foringjaræði. En hvort heldur sem við köllum það, er það algjör afbökun á þrískiptingu valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Framkvæmdarvaldið hefur með æ óskammfeilnari hætti sótt inn á valdsvið hinna tveggja. Ráðherrar með forsætisráðherrann í broddi fylkingar hafa hvað eftir annað gert úrskurði dómsvaldsins tortryggilega. Hvað eftir annað hafa viðbrögð þeirra við úrskurðum um stjórnarskrárbrot orðið þau, að þá verði bara að breyta stjórnarskránni. Þeir hafa átt í vaxandi erfiðleikum með að viðurkenna nokkur valdmörk gildi fyrir ráðherra. Þegar þingið var látið afgreiða heimild til ríkisábyrgðar til eins fyrirtækis upp á 20 þúsund milljónir eða tíunda part af fjárlögunum, kom í ljós að sennilega stríddi það gegn reglum EES (fyrir utan að heimildin stríddi gegn stefnu Sjálfstæðiflokksins og yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar). Allavega dróst afgreiðsla eftirlitsnefndar EES svo lengi að Íslensk erfðagreining ákvað að leysa fjármögnun sína með öðrum (og hagstæðari) hætti. Viðbrögð fjármálaráðherra voru þau að það væri áhyggjuefni fyrir þjóðina ef völd til þess arna væru ekki lengur í landinu sjálfu. Dómsmálaráðherrann unir því ekki að Alþingi hafi sett lög sem takmarka vald hans til embættaveitinga og færist undan því að þurfa að hlíta jafnréttislögum. Hann gengur nú fram fyrir skjöldu með fáránleg rök fyrir því að þrengja atkvæðisrétt landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslu.Því er fullum fetum haldið fram að málskot til þjóðarinnar í umdeildum málum sé árás á Alþingi og fulltrúalýðræðið. Hið sanna er þvert á móti. Ef þjóðin ber gæfu til þess að synja þessum illa unnu og fáránlegu fjölmiðlalögum samþykkis, lögum sem sannanlega eru runnin undan rifjum aðeins eins manns, þröngvað gegnum samstarfsflokkinn og með naumindum samþykkt af handjárnuðu þingi, fengi hún þinginu dýrmætt vopn í hendur gegn kúgun framkvæmdavaldsins. Stjórninni yrði mögulega komið í skilning um að hér á að ríkja þingbundin stjórn, en ekki öfugt: Hún á ekki að drottna yfir stjórnbundnu þingi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Hannibalsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Heilbrigðiskerfið logar og er að hrynja: Þú áttir betra skilið Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Halldór 9.11.2024 Halldór Það sem má alls ekki tala um... Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Rekin út fyrir að vera kennari Álfhildur Leifsdóttir Skoðun Lenda menn í fangelsi eftir misheppnaða skólagöngu? Elinóra Inga Sigurðardóttir Skoðun Litlu fyrirtækin – kerfishyggja og skattlagning Eiríkur S. Svavarsson Skoðun Reiknileikni Sambandsins Ragnar Þór Pétursson Skoðun Við þurfum að tala um Bálstofuna Matthías Kormáksson Skoðun
Samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins er svo ráð fyrir gert að við búum við þingbundna stjórn, þ.e. stjórn, sem meirihluti þings annaðhvort styður eða er reiðubúinn að verja vantrausti. Þetta er merking orðsins þingræði og ekkert umfram það. Nú hefur svo æxlast til að landsmenn skipta þannig fylgi sínu milli stjórnmálaflokka að samsteypustjórnir eru meginregla um myndun ríkisstjórnar. Stjórnmálaflokkarnir ganga "óbundnir til kosninga" og kjósendur vita aldrei hvers konar stjórn kemur upp úr kjörkössunum eða í eftiráhrossakaupum milli flokkanna. Þeir geta aldrei lagt neikvæðan dóm á gerðir fráfarandi ríkisstjórnar og verið vissir um að með því uppskeri þeir ríkisstjórn annarra flokka, þ.e. efli stjórnarandstöðuna til valda. Kosningar í þessu landi eru líkari skoðanakönnunum en afdrifaríkri ákvörðun um skipan komandi stjórnar í landinu. Til skamms tíma voru stjórnmálaflokkarnir öðrum þræði málfundafélög. Þar voru mál lögð fyrir og prófuð - nærri grasrótinni. Að minnsta kosti þurfti að ræða þau í fulltrúaráðum og miðstjórnum og ná um þau víðtæku samkomulagi innan hvers aðildarflokks að stjórnarsamsteypunni. Á síðustu árum hefur hins vegar orðið æ sterkara foringjaræði innan flokkanna. Foringjarnir Halldór og Davíð hafa markað þá stefnu að flokkarnir séu eins og herlið á orrustuvelli: Annaðhvort ertu með í liðinu eða þú ert genginn í lið með andstæðingunum. Og það eru alráðir herforingjar sem stjórna liðinu. Þeir tveir ræða lagafrumvörp ríkisstjórnarinnar sín á milli og tilkynna þingflokkum sínum að samkomulag hafi náðst. Þrautreynt sé að lengra verði ekki komist. Aðeins málamyndabreytingar megi gera frá samkomulagi þeirra. Fullkomin leynd hvílir yfir því hvað hvor þeirra lagði upp með og hvernig það upplegg breyttist í meðförum þeirra. Þingmenn standa frammi fyrir orðnum hlut og eru einungis spurðir: Ertu með okkur í liði, eða á móti? Það getur orðið einstökum þingmönnum dýrkeypt að láta sannfæringu sína þvælast fyrir sér og ganga gegn samkomulagi formannanna. Framavonir kunna að glatast. Þeir koma ekki lengur til álita í áhrifastöður. Margvíslegar sporslur kunna að gufa upp. Við þessar aðstæður geta áðurnefnd fyrirmæli stjórnarskrárinnar snúist upp í andhverfu sína og í stað þingbundinnar stjórnar sitjum við uppi með stjórnbundið þing. Þing sem hefur glatað virðingunni fyrir sjálfu sér, þing, sem lætur sér nægja það hlutverk að stimpla með lögformlegum hætti hvaðeina sem kemur frá flokksformönnunum. Þetta höfum við horft upp á hvað eftir annað að undanförnu. Sumir hafa kallað þetta ráðherraræði. Réttnefni væri foringjaræði. En hvort heldur sem við köllum það, er það algjör afbökun á þrískiptingu valdsins í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald. Framkvæmdarvaldið hefur með æ óskammfeilnari hætti sótt inn á valdsvið hinna tveggja. Ráðherrar með forsætisráðherrann í broddi fylkingar hafa hvað eftir annað gert úrskurði dómsvaldsins tortryggilega. Hvað eftir annað hafa viðbrögð þeirra við úrskurðum um stjórnarskrárbrot orðið þau, að þá verði bara að breyta stjórnarskránni. Þeir hafa átt í vaxandi erfiðleikum með að viðurkenna nokkur valdmörk gildi fyrir ráðherra. Þegar þingið var látið afgreiða heimild til ríkisábyrgðar til eins fyrirtækis upp á 20 þúsund milljónir eða tíunda part af fjárlögunum, kom í ljós að sennilega stríddi það gegn reglum EES (fyrir utan að heimildin stríddi gegn stefnu Sjálfstæðiflokksins og yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar). Allavega dróst afgreiðsla eftirlitsnefndar EES svo lengi að Íslensk erfðagreining ákvað að leysa fjármögnun sína með öðrum (og hagstæðari) hætti. Viðbrögð fjármálaráðherra voru þau að það væri áhyggjuefni fyrir þjóðina ef völd til þess arna væru ekki lengur í landinu sjálfu. Dómsmálaráðherrann unir því ekki að Alþingi hafi sett lög sem takmarka vald hans til embættaveitinga og færist undan því að þurfa að hlíta jafnréttislögum. Hann gengur nú fram fyrir skjöldu með fáránleg rök fyrir því að þrengja atkvæðisrétt landsmanna í þjóðaratkvæðagreiðslu.Því er fullum fetum haldið fram að málskot til þjóðarinnar í umdeildum málum sé árás á Alþingi og fulltrúalýðræðið. Hið sanna er þvert á móti. Ef þjóðin ber gæfu til þess að synja þessum illa unnu og fáránlegu fjölmiðlalögum samþykkis, lögum sem sannanlega eru runnin undan rifjum aðeins eins manns, þröngvað gegnum samstarfsflokkinn og með naumindum samþykkt af handjárnuðu þingi, fengi hún þinginu dýrmætt vopn í hendur gegn kúgun framkvæmdavaldsins. Stjórninni yrði mögulega komið í skilning um að hér á að ríkja þingbundin stjórn, en ekki öfugt: Hún á ekki að drottna yfir stjórnbundnu þingi.