Menning

Útvarpstækið ómissandi

Aino Freyju Järvelä leikkonu finnst útvarpstækið besti hluturinn í bílnum sínum. Hún segist yfir höfuð ekki hlusta mikið á útvarp en nýti tímann í það þegar hún sé að keyra. "Mér finnst tilvalið að hlusta á fréttirnar í bílnum. Einnig finnst mér mjög gott að hlusta og læra þá tónlist sem er í verkunum sem ég er að vinna að hverju sinni. Þar með nota ég tímann sem ég þarf að eyða í bílnum til að vinna," segir hún. Aino Freyja er búin að eiga bílinn sinn sem er af gerðinni Nissan Almera í tæp tvö ár og er hún hæstánægð með hann. "Ég nota bílinn ekki mikið á sumrin því þá reyni ég að fara allra minna ferða á reiðhjóli. Þar slæ ég tvær flugur í einu höggi, kem mér í gott form og spara bensín. Aftur á móti er bíllinn minn mikið þarfaþing á veturna því þá er ég að vinna á mörgum stöðum og verð að vera fljót að komast á milli," segir hún. Á sumrin er nóg að gera hjá Aino Freyju því þá vinnur hún sem leiðsögumaður. Hún er einnig nýkjörin formaður Bandalags sjálfstæðu leikhúsanna en það er vettvangur hagsmunagæslu og samhæfingar sjálfstæðu atvinnuleikhúsanna í baráttu fyrir viðurkenningu og betra starfsumhverfi. Þá er Aino Freyja og Hrefna Hallgrímsdóttir leikkona, ásamt fleirum, að setja upp leikþátt upp úr Jónsmessunæturdraumi sem sýnt verður í Húsdýra - og fjölskyldugarðinum á Jónsmessunótt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×