Gatlin hljóp á 9,92 sekúndum sem er besti tími ársins. Christian Coleman frá Bandaríkjunum varð annar á 9,94 sekúndum og Bolt kom þriðji í mark á 9,95 sekúndum.
Eins og sjá má á tímunum munaði afar litlu á efstu þremur en Bolt átti erfitt start. Coleman byrjaði mjög vel en Gatlin átti magnaðan endasprett og skaust fram úr á lokametunum. Hann hljóp á áttundu braut en þeir Coleman og Bolt voru hlið við hlið, á fjórðu og fimmtu braut.
Þrátt fyrir að Bolt hafi ekki verið upp á sitt besta í sumar og talsvert frá sínu besta þorðu fáir að spá því að hann myndi ekki vinna gull í greininni, enda sigursælasti hlaupari sögunnar. Heimsmetið hans, 9,58 sekúndur, sem hann setti á HM í Berlín fyrir átta árum síðan stendur enn. Síðan þá hefur Bolt unnið nánast öll gullverðlaun á stórmótum sem hafa verið í boði fyrir hann, í 100 og 200 m hlaupi. Hann varð þó af gullinu á HM í Suður-Kóreu árið 2011 vegna þjófstarts.

Gatlin er 35 ára og fremur óvinsæll hvar sem hann keppir, þar sem hann féll á lyfjaprófi árið 2001 og svo aftur árið 2006. Hann fékk fjögurra ára bann í síðara skiptið og hóf aftur að keppa í ágúst 2010.
Greinilegt var að titillinn í kvöld hafði mikla þýðingu fyrir hann og var Gatlin í tárum eftir sigurinn. Hann kraup hins vegar fyrir Bolt sem kveður frjálsíþróttirnar á næstu dögum, ef hann stendur við yfirlýsingar sínar.
Gatlin varð síðast heimsmeistari í 100 m hlaupi á HM í Helsinki árið 2005. Hann vann silfur á HM í Peking fyrir tveimur árum sem og á HM í Moskvu árið 2013.