Sport

Frábærar gólfæfingar og Ísland í úrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blandaða liðið komst í úrslit.
Blandaða liðið komst í úrslit. mynd/steinunn anna svansdóttir
Blandað lið Íslands komst nú rétt í þessu í úrslit á EM í hópfimleikum sem fer fram í Lukna höllinni í Maribor í Slóveníu.

Ísland endaði í 5. sæti af níu liðum og fór áfram ásamt Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Bretlandi og Ítalíu.

Íslenska liðið var um tíma með forystu eftir frábærar æfingar á gólfi en endaði að lokum í 5. sæti með 53,416 í heildareinkunn.

Blandaða liðið hóf leik á trampólíni og fékk 16,900 í einkunn fyrir þær æfingar.

Gólfæfingarnar gengu skínandi vel, svo vel að þær skiluðu Íslandi 20,566 í einkunn sem var á þeim hæsta einkuninn í blandaða flokknum.

Ísland tók forystuna og hélt henni þangað til Norðmenn fengu sína einkunn fyrir gólfæfingarnar. Norska liðið fékk 20,816 stig fyrir gólfæfingarnar og fór því upp fyrir Ísland.

Æfingar á dýnu gengu ekki jafnvel og gólfæfingarnar. Ísland fékk 15,950 í einkunn fyrir dýnustökkin og féll fyrir vikið niður í 5. sætið. Sætið í úrslitunum á laugardaginn var þó aldrei í hættu og það er fyrir mestu.

Keppni í kvennaflokki hefst klukkan 16:15. Hægt er að fylgjast með henni með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×