Íslenski boltinn

Fyrsti sigurinn í 16 ár hjá ÍA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skagakonur eru komnar með fjögur stig í Pepsi-deildinni.
Skagakonur eru komnar með fjögur stig í Pepsi-deildinni. vísir/eyþór
ÍA vann sinn fyrsta leik í Pepsi-deild kvenna þegar liðið sótti KR heim í gær.

Megan Dunnigan skoraði bæði mörkin í 0-2 sigri Skagakvenna sem eru nú komnar með fjögur stig í deildinni. Þær eru þremur stigum frá FH sem er í 8. sætinu en þessi lið mætast í Kaplakrika í næstu umferð.

Þetta var ekki bara fyrsti sigur ÍA í Pepsi-deildinni í ár heldur fyrsti sigur Akurnesinga í efstu deild kvenna í 16 ár, eða frá árinu 2000.

Sjá einnig: Skagaliðin með fullt hús á KR-velli í fyrsta sinn í 29 ár | Myndir

Þá unnu Skagakonur 2-1 sigur á Þór/KA á heimavelli í 7. umferð Landssímadeildarinnar. Áslaug Ragna Ákadóttir og Kolbrún Eva Valgeirsdóttir skoruðu mörk ÍA í leiknum.

ÍA endaði í 6. sæti Landssímadeildarinnar 2000 en spilaði ekki aftur í efstu deild fyrr en fimm árum seinna. Þá vann ÍA ekki leik, ekki frekar en 2014 þegar liðið féll með aðeins eitt stig.

Frá sigurleiknum gegn Þór/KA 4. júlí 2000 og fram að leiknum í gær lék ÍA því 47 leiki í efstu deild í röð án þess að vinna. En Skagakonum tókst loksins að landa sigri í gær og það verður spennandi að sjá hvort þeir verða fleiri í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×