Íslenski boltinn

Berglind Björg áfram á skotskónum | Tryggði Fylki þrjú stig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Ruth Þórðar Þórðardóttir fagna marki.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Ruth Þórðar Þórðardóttir fagna marki. Vísir/Andri Marinó
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði í fimmta leiknum í röð þegar Fylkiskonur sóttu þrjú stig á Selfoss í tíundu umferð Pepsi-deildar kvenna í kvöld.

Fylkir vann leikinn 1-0 og hefur þar með unnið báða leiki sína á móti Selfossi í Pepsi-deildinni í sumar.

Berglind Björg hefur skoraði í síðustu fimm deildar og bikarleikjum Fylkisliðsins og samtals tíu mörk frá og með næstsíðasta degi júnímánaðar.

Selfossstelpur unnu fimm leiki í röð í byrjun tímabilsins og virtust ætla að vera með í titilbaráttunni en ekkert hefur gengið hjá liðinu upp á síðkastið og Selfossliðið er nú ellefu stigum á eftir toppliði Breiðabliks og aðeins einu stigi á undan Fylki.

Berglind Björg skoraði sigurmarkið sitt á 52. mínútu eftir mjög vel útfærða og hraða sókn upp völlinn sem endaði með því að Shu-o Tseng stakk boltanum inn fyrir vörnina á Berglindi Björgu sem afgreiddi boltann í netið.

Selfossliðið fékk fjölmörg færi til að skora í þessum leik og þá sérstaklega fyrirliðinn Guðmunda Brynja Óladóttir. Hin nítján ára gamla Eva Ýr Helgadóttir var heldur betur betri en enginn í marki Fylkisliðsins í kvöld.

Bæði liðin eru komin í undanúrslit Borgunarbikarsins en gengi liðanna hefur verið ólíkt í Pepsi-deildinni.

Fylkisliðið var þarna að fagna sigri í fjórða deildarleiknum í röð en Selfoss hefur aðeins náð í tvö stig út út síðustu fjórum deildarleikjum sínum.


Tengdar fréttir

Níu mörk á tólf dögum hjá Berglindi

Það er óhætt að segja Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji Fylkis í Pepsi-deild kvenna, hafi verið sjóðheit upp við mark andstæðinganna í síðustu leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×