Enski boltinn

Mo Salah fjar­lægði allt tengt Liverpool af miðlum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah virðist vera í fýlu eftir að hann var settur á bekkinn í Meistaradeildarleik á móti Eintracht Frankfurt.
Mohamed Salah virðist vera í fýlu eftir að hann var settur á bekkinn í Meistaradeildarleik á móti Eintracht Frankfurt. Getty/Rene Nijhuis

Mohamed Salah byrjaði á bekknum hjá Liverpool í Meistaradeildinni í gærkvöldi og liðið svaraði með 5-1 sigri. Egyptinn er augljóslega mjög ósáttur með lífið þessa dagana.

Hann hefur byrjað alla leiki Liverpool en gert mjög lítið upp á síðkastið á meðan Liverpool tapaði fjórum leikjum í röð í öllum keppnum.

Salah var svo ósáttur með bekkjasetuna að hann strunsaði inni í klefa eftir leik þótt Liverpool hefði unnið langþráðan og sannfærandi stórsigur.

Í ofanálag þá fjarlægði Salah allt tengt Liverpool af miðlum sínum sem hefur vakið mikla athygli. Það virðist vera mikið drama í gangi hjá að flestra mati besta leikmanni Liverpool.

Salah framlengdi samning sinn við Liverpool í apríl síðastliðnum þegar hann, öðrum fremur, var búinn að færa Liverpool tuttugasta enska meistaratitilinn. Nýi samningur Salah nær til júlí 2027 en þá verður hann orðinn 35 ára gamall.

Frammistaða Salah var mögnuð á síðustu leiktíð því hann var bæði markahæstur (29) og stoðsendingahæstur (18) í ensku úrvalsdeildinni og kom því alls að 47 mörkum liðsins í 38 leikjum.

Á þessu tímabili hefur hann komið að sex mörkum samanlagt (3 mörk og 3 stoðsendingar) í ellefu leikjum í ensku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni.

Frammistaðan hefur verið mjög slök í síðustu leikjum og því kom það engum á óvart að sjá hann á bekknum í leiknum. Nú reynir á knattspyrnustjórann Arne Slot að leysa úr þessum leiðunum og koma stórstjörnu Liverpool úr fýlu og aftur í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×