Enski boltinn

Dyche snýr aftur í enska boltann

Sindri Sverrisson skrifar
Sean Dyche er orðinn knattspyrnustjóri Nottingham Forest.
Sean Dyche er orðinn knattspyrnustjóri Nottingham Forest. Getty/James Gill

Sean Dyche er mættur aftur í enska boltann og verður þriðji knattspyrnustjórinn sem stýrir Nottingham Forest á þessari leiktíð.

Forest greindi frá ráðningu þessa 54 ára gamla Englendings í dag. Hann skrifaði undir samning við félagið sem gildir til sumarsins 2027.

Dyche hefur verið án starfs síðan hann var látinn fara frá Everton í janúar. Hann hóf stjóraferilinn hjá Watford en stýrði svo Burnley í áratug.

Dyche tekur við af Ange Postecoglou sem entist aðeins í 39 daga og var rekinn aðeins rúmu korteri eftir 3-0 tapið gegn Chelsea síðasta laugardag.

Undir stjórn Postecoglou vann Forest ekki einn einasta leik en tapaði sex og gerði tvö jafntefli.

Nuno Espirito Santo hafði gert frábæra hluti með Forest en var rekinn eftir aðeins þrjá leiki á þessu tímabili, vegna ósættis við eiganda félagsins.

Forest er aðeins í 18. sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Fyrsti leikur Dyche verður hins vegar í Evrópudeildinni á fimmtudaginn þegar liðið tekur á móti Porto en svo er leikur við Bournemouth á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×