Enski boltinn

Gerrard: Owen var betri sem táningur en Yamal og Mbappé

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Michael Owen og Steven Gerrard komu báðir upp í gegnm unglingastarf Liverpool og léku lengu saman bæði hjá Liverpool og enska landsliðinu.
Michael Owen og Steven Gerrard komu báðir upp í gegnm unglingastarf Liverpool og léku lengu saman bæði hjá Liverpool og enska landsliðinu. GettY/Steve Mitchell

Margir eru að missa sig yfir ungum leikmönnum í dag og gleyma stundum hversu góðir sumir leikmenn voru á sínum tíma. Liverpool goðsögnin Steven Gerrard vill passa upp á það að ungur Michael Owen gleymist ekki.

Gerrard segir leikmenn eins og þá Lamine Yamal og Kylian Mbappé vera ótrúlega leikmenn en á táningsaldri hafi Owen samt verið betri leikmaður.

Yamal er átján ára og kemur til greina í kjöri um Gullknöttinn í ár. Yngsti leikmaður sögunnar til að fá þau verðlaun er Brasilíumaðurinn Ronaldo sem vann þá 21 árs gamall árið 1997. Mbappé er 26 ára í dag en var líka orðinn súperstjarna á táningsaldri.

Gerrard og Owen léku saman hjá Liverpool í sex ár áður en Owen fór til Real Madrid árið 2004.

„Hinir tveir eru að elta sinn fyrsta Ballon d'Or en hinn á einn. Ég held að ég verð að bera virðingu fyrir því að Michael Owen var kosinn besti leikmaður í heimi,“ sagði Gerrard við ESPN.

„Ég spilaði með honum. Hann var ótrúlegur táningur. Ég segi því að Michael Owen sé sá besti. Ég vil samt taka það fram að Mbappé og Lamine Yamal eru báðir ótrúlegir leikmenn,“ sagði Gerrard.

Owen lék sinn fyrsta leik með aðalliði Liverpool sautján ára gamall árið 1996. Hann hefur skorað flest mörk sem táningur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar eða 40 mörk í 79 leikjum. Hann var tvítugur árið 1999 en hafði þá árið áður farið á kostum með enska landsliðinu á HM í Frakklandi sumarið 1998.

Owen var 22 ára gamall þegar hann fékk Gullknöttinn árið 2001 en það ár vann Liverpooo bikarþrennuna svokölluðu eða enska bikarinn, enska deildabikarinn og UEFA-bikarinn.

Owen er jafnframt síðasti enski leikmaðurinn til að fá Gullknöttinn en hinir Englendingar sem hafa fengið Gullknöttinn eru Kevin Keegan (1978, 1979), Bobby Charlton (1966) og Stanley Matthews (1956).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×