Enski boltinn

Eddie Howe segir að Newcastle hafi ekki enn fengið til­boð í Isak

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Isak fagnar marki fyrir Newcastle United í sigri á Liverpool í úrslitaleik enska deildabikarsins í febrúar.
Alexander Isak fagnar marki fyrir Newcastle United í sigri á Liverpool í úrslitaleik enska deildabikarsins í febrúar. Getty/Stu Forster

Knattspyrnustjóri Newcastle United var spurður út í framtíð sænska framherjans Alexander Isak en búist er við því að Liverpool bjóði metupphæð í leikmanninn.

Eddie Howe hefur ekki haft Isak síðustu daga því hann fór ekki með liðinu í æfingaferðina til Asíu. Leikmaðurinn vill komast í burtu en vill þó ekki skrifa undir risasamning í Sádi-Arabíu heldur frekar komast til Englandsmeistaranna samkvæmt upplýsingum ensku fjölmiðlanna.

Isak er 25 ára gamall og þrátt fyrir að Newcastle segi að hann sé ekki til sölu þá mun vilji leikmannsins að komast í burtu alltaf setja auka pressu á það að hann verði seldur.

Liverpool er búið að vera mjög duglegt á leikmannamarkaðnum í sumar og keypti nýverið framherjann Hugo Ekitike fyrir 69 milljónir punda. 

Liverpool þarf að lágmarki að eyða tvöfalt meira til að fá Isak en hefur efni á því þökk sé góðu gengi síðasta vetur og sparsemi í síðustu leikmannagluggum á undan.

Liverpool þarf þá að bjóða í Isak og það bólar ekkert á slíku ennþá samkvæmt knattspyrnustjóra Newcastle.

„Hann er ennþá okkar leikmaður. Hann er með samning við okkur,“ sagði Eddie Howe á blaðamannfundi.

„Við, upp að vissu marki, stjórnum því hvað tekur við hjá honum. Ég vil trúa því að allir möguleikarnir séu enn í boði,“ sagði Howe.

„Mín ósk er að hann verði áfram en ég ræð því ekki einn. Við höfum ekki fengið formlegt tilbið í Alex, ekki frá neinu félagi,“ sagði Howe.

Isak kom til Newcastle frá Real Sociedad árið 2022 fyrir sextíu milljón pund. Hann á enn eftir þrjú ár af samningi sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×