Enski boltinn

Yfir­gefur her­búðir Chelsea tveimur dögum fyrir úr­slita­leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Noni Madueke mun ekki taka þátt í úrslitaleiknum á HM félagsliða þar sem Chelsea mætir Paris Saint Germain.
Noni Madueke mun ekki taka þátt í úrslitaleiknum á HM félagsliða þar sem Chelsea mætir Paris Saint Germain. Getty/Chris Brunskill

Fátt virðist koma í veg fyrir það að Noni Madueke verði ný leikmaður Arsenal.

Nýjustu fréttir af málinu er að Madueke hafi fengið að yfirgefa herbúðir Chelsea þar sem liðið er að undirbúa sig fyrir úrslitaleik á móti Paris Saint Germain í heimsmeistarakeppni félagsliða.

The Athletic hefur heimildir fyrir því að leikmaður hafi yfirgefið félagið aðeins tveimur dögum fyrir úrslitaleikinn.

Madueke mun fljúga til Englands til að gangast undir læknisskoðun og ganga frá sínum málum.

David Ornstein hjá Athletic segir að enski vængmaðurinn muni skrifa undir fimm ára samning.

Madueke er 23 ára gamall og var með samning við Chelsea til 2030. Hann kom til Chelsea frá PSV Eindhoven í janúar árið 2023.

Madueke var með 7 mörk og 4 stoðsendingar í 32 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð en hann hefur ekki átt þátt í marki í fimm leikjum í heimsmeistarakeppni félagsliða.

Madueke skoraði þrennu í fyrsta deildarleik sínum á síðustu leiktíð en hann skoraði ekki í síðustu ellefu leikjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×