Gagnrýni

Eld­borg breyttist í vél­rænt hel­víti

Jónas Sen skrifar
Tónleikarnir fóru fram föstudagskvöldið 21. mars í Eldborg í Hörpu. Strax í upphafi mátti finna að eitthvað óvenjulegt væri í vændum.
Tónleikarnir fóru fram föstudagskvöldið 21. mars í Eldborg í Hörpu. Strax í upphafi mátti finna að eitthvað óvenjulegt væri í vændum. Jónas Sen

Segja má að aukaverkanirnar af tónleikunum á föstudagskvöldið séu þríþættar. Einstaklingar hafa greint frá myrkri framtíðarsýn, eins konar tónlistarútópíu þar sem aðeins orgel ogþungarokk fá að hljóma.

Aðrir kvarta undan því að eftir tónleikana hafi þeir reynt að setja sig aftur inn í rútínu hversdagsins en ekki komist lengra en tíu sekúndur áður en höfuðið byrjaði að slá takt af sjálfu sér.

Enn aðrir sem áður stunduðu jóga og hugleiðslu hafa nú tekið upp á því að að öskra „dauðinn er mér kær!“ á meðan þeir hamra á ímyndað hljómborð.

HAM og Apparat tóku salinn í gíslingu

Ef þetta hljómar ruglingslega, þá er það vegna þess að ég er í svo miklu uppnámi eftir tónleika HAM og Orgelkvartettsins Apparat að ég þarf að berjast við að ná einbeitingu. Höfuð mitt slær takt í sífellu…

Ekki er hægt að segja „ég fór á tónleika í gær“ án þess að það hljómi of hversdagslega miðað við það sem raunverulega gerðist í Eldborg á föstudagskvöldið. Þetta voru ekki tónleikar. Þetta var hernám, fjandsamleg yfirtaka. HAM og Apparat birtust ekki sem tvær hljómsveitir sem ákváðu að spila saman. Þeir komu fram sem ein sameinuð heild — HAMPARAT — og þeir mættu ekki til að skemmta fólki. Þeir tóku það í gíslingu.

Altarisganga í vélknúnu myrkraveldi

Strax í upphafi mátti finna að eitthvað óvenjulegt væri í vændum. Lýsingin var hrá, köld og nánast trúarleg. Þetta var hvorki rokkstemning né rafdýnamík – þetta var altarisganga hins vanhelga í vélknúnu myrkaveldi. Og svo skall það á. Ekki var hægt að greina hvað var HAM og hvað var Apparat. Þetta var bara veggur – nei, hellingur – af hljóði: hávær hljómaorgía, stíf, römm, og á einhvern undarlegan hátt fullkomlega reiknuð út.

Jónas Sen

Fyrir þá sem héldu að „orgel“ væri eitthvað sem tilheyrir kirkju eða barokktónlist, þá leiðréttu tónleikarnar þann misskilning á allt að því ofbeldisfullan máta. Köld hljóð orgelanna runnu saman við þungarokkið í HAM og til varð eitthvað sem á ekki að vera til: hljóðheimur sem bæði lamdi mann og lyfti, molaði andlitið en skildi samt eftir dásamlega innri alsælu.

Myrkur, metall og kómískur geimóður

Og ekki nóg með það. Tónleikarnir voru líka fyndnir. Óttar Proppé, sem var aðalsöngvari tónleikanna, fór á kostum, og þegar hann urraði VIÐ ERUM HAMPARAT… OG ÞIÐ ERUÐ HAMPARAT, þá fékk maður gæsahúð. Almennt talað var eitthvað kostulegt við að horfa á illilega menn ausa myrkri yfir áheyrendur með gítar, trommur og bassa að vopni, á meðan aðrir sátu í trans að hamra á orgel eins og verið væri að reyna að hafa samband við vitsmunaverur utan úr geimnum. Þetta var „absúrdisminn sem listform“ og virkaði fullkomlega.

Steinunn Eldflaug kom líka fram í nokkrum atriðum, og lag um Steve Jobs og Bill Gates var sérstaklega skemmtilegt, töluvert í anda Kraftwerks, en þó mun hrárra. Hún söng með fínlegri rödd sem myndað frábært mótvægi við ofgnótt testósteróns á sviðinu.

Eldborg varð vígvöllur

Það var dásamlegt hversu þetta virkaði allt saman vel í Eldborgarsalnum. Ekki þrátt fyrir að þetta væri ein skrítnasta samsetning sem hann hefur hýst – heldur einmitt vegna þess. Salurinn, sem oft er smekklegur og hljómburðarlega „hreinn“, varð allt í einu vettvangur fyrir hávaða, myrkur og vélmennaraddir. Þakplötur hristust. Það var eins og Harpan sjálf hefði samþykkt HAMPARAT sem nýja yfirboðara sína.

Hljóðheimurinn var mergjaður. Þarna voru ekki beint melódíur heldur hljóðrugl sem gerði ekkert nema nákvæmlega það sem því var ætlað: að hrista upp í líkama og sál. Hjartað fór að slá takt við vélina. Heili minn, sem átti að skynja og greina, gafst bara upp og snerist fullkomlega á hvolf.

Jónas Sen

HAMPARAT stal vitund minni

Margir tala um tónleika sem upplifun, en þetta var ekki það. Þetta var inngrip. HAMPARAT komu, tóku vitund mína, hræddu mig, heilluðu mig, hlógu að mér og skildu mig eftir skítugan, en um leið meira lifandi en áður.

Ég veit ekki hvort ég get mælt með þessu. Ég veit ekki heldur hvort ég vil að þetta gerist aftur. En ef það gerist – þá verð ég mættur. Ekki af því ég vil það, heldur af því ég get ekki annað.

HAMPARAT hafa fest sig í taugakerfinu. Ég er ekki samur. Og ég er ekki viss um að það sé slæmt.

Niðurstaða:

HAMPARAT sýndu fram á að tónlist getur verið meira en list – hún getur verið vopn. Hjómsveitin braut niður varnir, tók yfir skynjun og afhjúpaði eitthvað í manneskjunni sem venjulega fær ekki útrás. Þetta var árás á eðlilega skynsemi – og hún heppnaðist fullkomlega. Eldborg breyttist í vélrænt helvíti, og það var unaðslegt.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.