Enski boltinn

Meiddur í fimmta sinn á tíma­bilinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Ítalía þurfti að spila síðustu mínúturnar með tíu menn inni á vellinum.
Ítalía þurfti að spila síðustu mínúturnar með tíu menn inni á vellinum. Alex Grimm/Getty Images

Ítalski landsliðsmaðurinn Riccardo Calafiori, leikmaður Arsenal, er mættur aftur til Lundúna eftir að hafa meiðst í leik gegn Þýskalandi í gærkvöldi.

Calafiori rann á boltanum í uppbótartíma leiksins og hélt um vinstra hnéð eftir á. Hann fékk aðhlynningu sjúkraþjálfara og var síðan tekinn af velli, en Ítalía hafði þá notað allar fimm skiptingarnar og þurfti að klára leikinn manni færri.

Ekki hefur verið greint frá því hversu lengi Calafiori verður frá en slúðurblað á Ítalíu talar um tvær til þrjár vikur. Ítalska landsliðið greindi frá því fyrr í dag að hann myndi ferðast aftur til Lundúna og ekki taka þátt í seinni leiknum á sunnudag. Ítalía er 2-1 undir í einvíginu gegn Þýskalandi.

Þetta er í fimmta sinn á tímabilinu sem Calafiori meiðist og þriðja sinn sem hné hans eru til vandræða. Alls hefur hann misst af sextán leikjum í öllum keppnum fyrir Arsenal og Ítalíu á tímabilinu. Seinni leikurinn gegn Þýskalandi á sunnudag verður sá sautjándi.

Calafiori er meiðslapési. David Price/Arsenal FC via Getty Images

Arsenal á svo framundan leiki gegn Fulham og Everton í ensku úrvalsdeildinni, áður en átta liða úrslita einvígið gegn Real Madrid hefst þann 8. apríl. Ef miðað er við að Calafiori verði frá í þrjár vikur ætti hann að vera orðinn klár fyrir seinni leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×