Tónlist

Draumurinn rættist að syngja með Bubba

Svava Marín Óskarsdóttir skrifar
Bubbi Morthens og Friðrik Dór sameinast í fyrsta sinn í laginu Til hvers þá að segja satt?
Bubbi Morthens og Friðrik Dór sameinast í fyrsta sinn í laginu Til hvers þá að segja satt? Baldur Kristjánsson

Tónlistarmaðurinn Friðrik Dór situr ekki auðum höndum þessi misserin en á miðnætti kom út nýtt lag með kappanum þar sem hann fær engan annan Bubba Morthens í lið með sér. 

„Lagið kom til mín í desember og mér fannst það strax svolítið „Bubbalegt“, bæði textinn og laglínan. Ég sendi Bubba síðan skilaboð því mig langaði að leyfa honum að heyra það. Innst inni langaði mig samt að fá hann í lagið með mér. Auðvitað til að syngja en jafnframt dauðlangaði mig að fá hann til að spila á munnhörpuna,“ segir Friðrik Dór í samtali við Vísi. 

Bubbi hafi í kjölfarið boðið honum að syngja og spila á munnhörpuna að fyrra bragði. „Hann las mig eins og opna bók,“ segir hann.

Það er óhætt að segja að draumur sé að rætast við Friðrik Dór að fá að syngja með Bubba en hann hefur verið aðdáandi frá unglingsaldri. „Ég man ennþá þegar ég settist gagngert niður í eldhúsinu heima með Walkman og Bubba-diska til að kynna mér tónlistina hans. Í stuttu máli varð ég strax hrifinn og hef verið aðdáandi hans síðan. Það er því auðvitað ótrúlegur heiður fyrir mig að hann hafi verið til í þetta með mér og bara draumur að rætast.“

Friðrik vill ekki fara mikið út í það um hvað lagið fjallar enda segir hann það sé ekki hans að ákveða hvernig fólk túlkar textana sína. „Ég er aldrei mikið fyrir að útskýra textana mína. Mér finnst einmitt svo skemmtilegt að heyra hversu mismunandi túlkun fólks getur verið. En mér finnst textinn góður og hlakka til að heyra hvað fólk les í hann.“

Halldór Gunnar Pálsson útsetti lagið. „Hann er auðvitað í fyrsta lagi viðkunnanlegasti maður í Skandinavíu og frábær að vera í kringum. En umfram allt er hann stútfullur af hæfileikum og að mínu mati algjört séní í kassagítar drifinni tónlist. Við tókum okkur tíma í að finna laginu réttan búning og fórum alveg í nokkra hringi. Ég er hins vegar hrikalega glaður með lendinguna og finnst við hafa náð því besta út úr því.“

Það er varla hægt að hægt að sleppa Friðriki úr símanum án þess að spyrja hann út í Iceguys ævintýrið. „Iceguys eru ekki beint lagstir í hýði, raunar er stutt í nýtt lag frá okkur. En það er rosalega mikilvægt að hver og einn okkar haldi áfram að þróa sinn feril og setji þá ekki á pásu. Iceguys er eitt skemmtilegasta verkefni sem ég hef tekið þátt í en ég veit jafnframt að það mun ekki vara að eilífu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.