Upp­gjörið: Kefla­vík - Tinda­stóll 120-93 | Nýju mennirnir í stuði í stór­sigri

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Jarell Reischel skoraði fjórtán stig, tók ellefu fráköst og gaf fimm stoðsendingar fyrir Keflavík í kvöld.
Jarell Reischel skoraði fjórtán stig, tók ellefu fráköst og gaf fimm stoðsendingar fyrir Keflavík í kvöld. vísir/anton

Keflavík tók á móti Tindastól í Blue höllinni í kvöld þegar síðustu leikir 9. umferðar Bónus deild karla kláruðust. Það gekk allt upp hjá heimamönnum í kvöld var það fljótt ljóst í hvað stefndi. Keflavík stóð uppi sem sigurvegari með 27 stigum, 120-93.

Það var Keflavík sem tók uppkastið og setti fyrstu fjögur stigin á töfluna til að koma leiknum af stað. Það var ljóst mjög fljótt að þetta yrði mikill baráttuleikur þar sem allt var undir. Það var Keflavík sem hafði yfirhöndina eftir fyrsta leikhluta, 28-20.

Í öðrum leikhluta keyrði Keflavík upp hraðann og náði að spila sinn bolta vel. Keflavík var að setja stór skot en náði þó ekki að slíta sig alveg frá Tindastól sem héldu ágætlega í við Keflavík þó svo að þeir hefðu ekki náð að saxa á forskot þeirra úr fyrsta leikhluta þá héldu Stólarnir vel í við heimamenn. Það var mikið skorað í fyrri hálfleiknum og lokaði Sigtryggur Arnar Björnsson stórskemmtilegum fyrri hálfleik með viðeigandi hætti þegar hann setti góðan þrist rétt áður en flautan gall.

Keflavík slakaði ekkert á þegar komið var út í þriðja leikhluta og héldu áfram að keyra upp hraða og spila beinskeyttan körfubolta. Tindastóll átti fá svör við þeirra leik og skotnýting Keflavíkur fyrir utan þriggja stiga línuna var stórkostleg þar sem þeir röðuðu hverjum þristinum á fætur öðrum. Keflavík leiddi, 91-69, þegar þriðji leikhluti var úti.

Keflavík opnaði fjórða leikhluta með því að negla niður hverjum þristinum á fætur öðrum. Nýtingin fyrir aftan þriggja stiga línuna var svakaleg og þetta var orðið hálf hlægilegt hvað öll skot heimamanna virtust detta. Sigurinn var aldrei í hættu og byrjaði Keflavík að rúlla bekkinn hjá sér með um fimm mínútur eftir. Keflavík hafði á endanum betur með 27 stiga mun, 120-93.

Atvik leiksins

Keflavík tóku gjörsamlega yfir í þriðja leikhluta og héldu skotsýningu. Erfitt að taka eitthvað eitt móment út fyrir sviga svo það má í sjálfu sér bara nefna nýtingu Keflavíkur fyrir aftan þriggja stiga línuna sem ákveðið atvik.

Stjörnur og skúrkar

Ty-Shon Alexander var frábær í liði Keflavíkur í kvöld með sín 33 stig. Það er einnig hægt að nefna Remi Emil Raitanen sem setti 20 stig. Keflavík sem lið var í raun bara framúrskarandi í kvöld.

Hjá Tindastól var Dedrick Basile hvað líklegastur og setti 20 stig.

Dómararnir 

Var ansi hræddur um að þeir væru að missa tökin á kafla og missa leikinn í eitthvað rugl. Eflaust hægt að ræða um fullt af hlutum úr þessum leik en heilt yfir var það ekki þeirra frammistaða sem skilaði því að svo fór sem fór. 

Stemmingin og umgjörð

Það var vel mætt í Blue höllina hér í kvöld og myndaðist frábær stemning í stúkunni. Umgjörð og annað var allt í toppstandi hjá Keflvíkingum eins og svo oft áður.

Viðtöl

„Fyrsta skipti sem það gekk betur í leik en á æfingu“

Pétur Ingvarsson var ánægður í leikslok.vísir/anton

„Það gekk eiginlega allt upp hjá okkur og ekkert hjá þeim. Það er eiginlega það eina sem hægt er að segja. Við eigum að spila við þá svo aftur á mánudaginn í 16-liða úrslitum í bikarnum og þá hefur þessi leikur eiginlega enga þýðingu,“ sagði Pétur Ingvarsson þjálfari Keflavíkur eftir sigurinn í kvöld.

„Við spiluðum vel í þessum leik og það voru margir að leggja í púkkið. Við hittum náttúrulega rosalega vel. Við erum kannski búnir að vera bíða eftir svona leik í allan vetur,“ bætti Pétur við.

Keflavík hafa átt leiki í vetur þar sem þeir hafa hitt illa og má segja að þeir hafi vel átt svona leik inni.

„Ég hugsa það. Ég held að þetta hafi verið smá uppsafnað að skotin færu að detta ofan í. Á æfingum hefur þetta verið að ganga miklu betur en í leikjum og þetta var í fyrsta skipti sem að það gekk betur í leik en á æfingu.“

Keflavík spilaði nánast óaðfinnanlega í kvöld og þá er erfitt að eiga við þá þegar sá gallinn er á þeim.

„Stundum eiga lið svona leik. Þetta gerist einu sinni á ári og við erum búnir með okkar leik núna. Við þurfum að bíða til 2025 þar til svona leikur gerist aftur hjá okkur.“

Pétur var ekki sammála því að þessi leikur væri skilaboð í deildina.

„Nei, það held ég ekki. Það man enginn eftir þessu eftir eina viku,“ sagði Pétur.

„Þetta var bara hundleiðinlegt“

Friðrik Hrafn Jóhannsson (lengst til vinstri) stýrði Tindastóli í Keflavík í kvöld.vísir/anton

„Við þurfum bara að gera betur sem hópur. Þetta var bara hundleiðinlegt,“ sagði Friðrik Hrafn Jóhannsson, aðstoðarþjálfari Tindastóls, sem stýrði liðinu í fjarveru Benedikts Guðmundssonar sem tók út leikbann í kvöld.

Keflavík voru sjóðandi heitir í kvöld og gríðarlega erfitt að eiga við þá þegar þeir detta í þann ham.

„Já, þeir hittu á dag. Mér finnst við samt hafa gefið þeim svolítið valkostinn á því að komast á þennan dag. Mér fannst mikið af þessum skotum óþarflega opin og orkustigið hjá okkur ekki alveg nægilegt og við þurfum bara að laga það fyrir næsta leik,“ sagði Friðrik.

„Það er erfitt að eiga við Keflavík þegar þeir ná að setja tóninn og við náum ekki að þjappa okkur saman og koma okkur til baka. Það er rosalega erfitt eins og sást hér í dag.“

Keflavík náði að snúa leiknum upp í sinn leik sem var erfitt fyrir Tindastól.

„Við lögðum upp með að láta Keflavík aðlaga sig að okkur en ekki við að þeim. Það heppnaðist ekki í dag og það er bara eins og það er,“ sagði Friðrik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira