Á mánudaginn setti Kerr inn færslu á Instagram þar sem hún greindi frá því að Mewis væri ólétt. Færslan fékk misjöfn viðbrögð. Margir óskuðu þeim til hamingju en aðrir skildu eftir hómófóbískar athugasemdir við færsluna. Sonia Bompastor, þjálfari Chelsea, botnar ekkert í því fólki.
„Ég vil styðja Sam. Ég styð við bakið á henni. Það er óásættanlegt að hafa svona athugasemdir, sérstaklega 2024. Mér er fyrirmunað að skilja hvernig fólk getur brugðist svona við,“ sagði Bompastor á blaðamannafundi.
„Ég vil einblína á það jákvæða og styðja þær Sam og Kristie. Við erum mjög stolt af þeim og ánægð fyrir þeirra hönd. Sem mamma get ég ekki hugsað neitt annað. Sem kona er ekkert betra en að fá fréttirnar að þú eigir tækifæri á að verða mamma.“
Hin ástralska Kerr hefur leikið með Chelsea síðan 2020. Hún hefur fimm sinnum orðið enskur meistari með liðinu og þrisvar sinnum bikarmeistari.
Mewis, sem er bandarísk landsliðskona, leikur með Dagnýju Brynjarsdóttur hjá West Ham United.