Enski boltinn

Ten Hag rekinn frá Man. Utd

Sindri Sverrisson skrifar
Erik ten Hag hefur verið rekinn og Ruud van Nistelrooy stýrir nú Manchester United, að minnsta kosti tímabundið.
Erik ten Hag hefur verið rekinn og Ruud van Nistelrooy stýrir nú Manchester United, að minnsta kosti tímabundið. Getty/James Gill

Hollenski knattspyrnustjórinn Erik ten Hag hefur verið rekinn frá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United.

Ruud van Nistelrooy, fyrrverandi leikmaður United sem kom inn sem aðstoðarstjóri í sumar, mun taka við af Ten Hag og stýra United tímabundið.

Tap United gegn West Ham um helgina, 2-1, reyndist því síðasti leikur United undir stjórn Ten Hag. Eftir tapið er United aðeins í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Ten Hag tók við United árið 2022 og undir hans stjórn vann liðið enska deildabikarmeistaratitilinn á fyrsta tímabili, og enska bikarmeistaratitilinn síðastliðið vor.

Gengið í deildinni hefur hins vegar verið skelfilegt og endaði United í áttunda sæti á síðustu leiktíð, auk þess að falla úr leik í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Liðið er núna í Evrópudeildinni og hefur gert jafntefli í fystu þremur leikjum sínum þar.

Í yfirlýsingu frá United er Ten Hag þakkað fyrir hans störf og óskað velfarnaðar. Þar segir að Nistelrooy muni stýra liðinu tímabundið á meðan að nýr stjóri til lengri tíma verði fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×