Enski boltinn

Jón Daði spilar fyrir Hollywood-liðið

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Daði Böðvarsson er orðinn leikmaður Wrexham í Englandi.
Jón Daði Böðvarsson er orðinn leikmaður Wrexham í Englandi. Wrexham

Jón Daði Böðvarsson, sem verið hefur í hléi frá fótbolta síðan samningur hans við Bolton rann út í sumar, hefur skrifað undir skammtímasamning við enska knattspyrnufélagið Wrexham.

Wrexham, sem er staðsett í Wales, leikur í C-deild Englands, sömu deild og Jón Daði lék í með Bolton. 

Wrexham er í baráttu um að komast upp í næstefstu deild og er sem stendur í næstefsta sæti með 24 stig eftir tólf leiki, fjórum stigum á eftir Birmingham en þar spila þeir Willum Þór Willumsson og Alfons Sampsted.

Wrexham er í eigu Hollywood-stjarnanna Ryan Reynolds og Rob McElhenney, sem eignuðust félagið árið 2020, þegar það var í E-deild. Það hefur svo einnig skapað sér miklar vinsældir um allan heim með heimildaþáttunum Welcome to Wrexham.

„Það er frábært að vera kominn í félag eins og Wrexham. Núna þekkja allir sögu félagsins og þetta er bara mjög spennandi félag til að tilheyra. Ég er himinlifandi með að vera hér og vonandi get ég hjálpað félaginu að ná enn frekari árangri,“ sagði Jón Daði sem hefur verið á Íslandi síðustu mánuði. Hann er feginn að vera mættur aftur í boltann.

„Það er gott að vera mættur aftur í búningsklefann, ég hef saknað þess. Ég held að konan mín hafi verið að klikkast! Ég hef æft og haldið mér í standi en það er gott að vera kominn aftur í þetta umhverfi til að ná aftur fram mínu besta.“

Jón Daði, sem á að baki 64 A-landsleiki og tvö stórmót, hefur spilað á Englandi frá árinu 2016, með Wolves, Reading, Millwall og Bolton. Áður lék hann með Kaiserslautern í Þýskalandi og Viking í Noregi, en hann hóf ferilinn heima á Selfossi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×