Áskorun

Kaupmálar 50+: „Mér finnst upp­komin börn oft ansi frek til fjárins“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Pétur Steinn Guðmundsson, lögmaður hjá Deloitte Legal og sérfræðingur í skattamálum, segir það oft taugatrekkjandi þegar 50+ fólk er að gera kaupmála fyrir síðari hjónabön, hversu mikil afskipti uppkomin börn hafa af peningamálum foreldra og væntum arfshluta sínum.
Pétur Steinn Guðmundsson, lögmaður hjá Deloitte Legal og sérfræðingur í skattamálum, segir það oft taugatrekkjandi þegar 50+ fólk er að gera kaupmála fyrir síðari hjónabön, hversu mikil afskipti uppkomin börn hafa af peningamálum foreldra og væntum arfshluta sínum. Vísir/Vilhelm

„Því miður hef ég þó séð það of oft að uppkomin börn eru með slíka afskiptasemi fjármálum foreldra að eiginleg samskipti foreldra og barna verða óeðlileg, vegna peninga og væntra arfshluta. Hið rétta er þó að í lifanda lífi, eru peningamál foreldra almennt þeirra eigin mál,“ segir Pétur Steinn Guðmundsson, lögmaður hjá Deloitte Legal og sérfræðingur í skattamálum.

Og Pétur Steinn bætir við:

„Fólk þarf því að muna að börn hafa engan rétt. Það á ekki að vera afskiptasemi erfingja á nokkurn máta.“

Umræðuefnið er kaupmáli fólks eftir fimmtugt, þegar fólk fer í annað hjónaband. Til dæmis í kjölfar skilnaðar eða í kjölfar þess að hafa misst fyrri maka.

Áskorun fjallar á mannlegan hátt um málin þar sem við tökumst á við okkur sjálf, mál innan fjölskyldunnar, önnur samskipta- og/eða tilfinningatengd mál, veikindi, fíkn, bata, sorg, dauða, aldurstengd mál og fleira.

Í dag fræðumst við um kaupmála, þar sem sjónum er beint að samkomulagi hjóna í seinni hjónaböndum.

Lykilatriðin í kaupmála

Á Ísland.is má sjá eftirfarandi texta um kaupmála:

Allar eignir hjóna kallast annað hvort hjúskapareignir eða séreignir.

Hjúskapareignir koma almennt til helmingaskipta milli hjóna við skilnað eða andlát, en það gera séreignir hvort aðilans um sig hins vegar ekki.

Kaupmáli er samningur sem hjón eða hjónaefni geta gert sína á milli og er tilgangurinn oftast sá að gera eign að séreign annars hjóna.

Pétur Steinn segir að kaupmáli eigi því eingöngu við þegar fólk gengur í hjónaband, eða er í hjónabandi.

„Fólk í sambúð sem er samskattað, telur stundum að kaupmáli sé eitthvað sem geti líka átt við um slík parasambönd. En það er ekki því forsenda kaupmála er hjónaband og grunnurinn er hjúskaparlögin.“

Pétur Steinn segir það fyrsta sem fólk þarf að hafa í huga þegar það gerir kaupmála, er að formið og frágangurinn sé réttur.

„Stundum koma upp mál eftir andlát annars makans þar sem í ljós kemur að kaupmálinn er ekki gildur.“

Hvað getur skýrt það út?

„Í fyrsta lagi þarf kaupmálinn að vera skráður hjá sýslumanni. Það er því ekki nóg að útbúa kaupmála og að hann sé ekki skráður formlega því um hann gilda hefðbundin þinglýsingarlög,“ segir Pétur Steinn og vísar til þess að í Lögbirtingarblaðinu, eru birtar með reglulegum hætti auglýsingar um hverjir hafa gert með sér kaupmála.

„Annað sem má nefna er vottunin. Þeir sem votta, þurfa að votta það sérstaklega að þeir séu að votta kaupmála. Það er því ekki nóg að undirritanir votta séu eingöngu undir formerkjunum að vera „vottar“ heldur þarf að koma skýrt fram að verið sé að votta kaupmála. Annars er kaupmálinn ekki gildur.“

Enn eitt atriðið sem má nefna, er hverjir eru vottar.

Það mega ekki vera hagsmunatengdir aðilar. 

Þeir þurfa að vera staðfestingarhæfir eins og það er kallað sem getur sett börn aðila sem hafa hagsmuna að gæta í erfiða stöðu, sem gæti einnig ógilt kaupmálann.“

Pétur Steinn segir fólk stundum gera þau mistök að skrá ekki kaupmála hjá sýslumanni en þá sé kaupmáli ekki gildur. Þá þarf formið að vera rétt. Til dæmis þurfa vottar að staðfesta að þeir séu að votta kaupmála og vottarnir mega ekki vera hagsmunatengdir aðilar.Vísir/Vilhelm

Algeng atriði í kaupmála

Pétur Steinn segir að þótt kaupmálar séu birtir í Lögbirtingablaðinu og teljist til opinberra gagna, sé ekki þar með sagt að hver sem er geti fengið upplýsingar um innihald þeirra.

„Þótt kaupmálar teljist opinber gögn sem allir geta óskað eftir upplýsingum um, þýðir það fyrst og fremst að allir geta fengið upplýsingar um hvort aðilar hafi gert með sér kaupmála. Ég veit ekki til þess að sýslumenn séu að veita upplýsingar umfram það,“ segir Pétur Steinn og vísar þar til innihalds kaupmála.

Sem geta falið í sér ýmiss atriði.

„Oft eru þetta kaupmálar sem gerðir eru vegna fasteignar. Til dæmis ef annar aðilinn á fasteign þegar gengið er í hjónaband og vill tryggja sig með því að vera viss um að ef kemur til skilnaðar, þá sé þessi fasteign enn í hans eða hennar eign og þá sem óskert séreign.“

Önnur dæmi geta verið jarðir, lífeyrisréttindi eða fyrirtækjaeign.

„Það sem er þó algengast eru fasteignir eða hlutabréfaeign,“ segir Pétur Steinn.

Pétur Steinn segir kaupmála vera í gildi á meðan hann er ekki afturkallaður.

„Fólk þarf hins vegar að muna að það er alltaf hægt að breyta kaupmála eða afturkalla hann síðar. Stundum vill fólk til dæmis gera kaupmála áður en það gengur í seinna hjónaband, til að tryggja sig fyrstu árin ef vera kynni að sambandið gengi ekki upp. Þetta getur alveg breyst með tímanum og þá er hægt að afturkalla eða breyta kaupmálanum.“

En hvað með til dæmis rétt makans til að sitja í óskiptu búi eftir andlát hins?

„Já þetta er mjög stórt atriði sem þarf að huga að og getur breytt ýmsu. Því ef um kaupmála er að ræða, getur komið upp sú staða að eftirlifandi maki getur ekki setið í óskiptu búi. Þetta er hins vegar hægt að útfæra sérstaklega í kaupmála þannig að hann sé tímasettur og eigi aðeins við í lifanda lífi.“

Þetta þýðir í raun að kaupmálinn er fyrst og fremst séreignarsamningur í lifanda lífi, ef til skilnaðar kemur.

„En við andlát getur allt orðið að hjúskapareign enda hefur fólk oft mikinn áhuga á því að andlát skapi ekki of mikið rask fyrir eftirlifandi maka.“

Stundum segir Pétur Steinn þetta þó ekki eiga við.

Sú staða getur komið upp að ef um verulegar fjáreignir er að ræða, til dæmis fasteignir, getur staðan orðið þannig að eftirlifandi maki hefur með engu móti ráð á því að eiga áfram eða reka fasteign eða aðrar eignir, á þeim launum sem eftirlifandi maki hefur,“ segir Pétur Steinn og bætir við:

„Eins þarf að hafa í huga að í kjölfar andláts skammlífari maka getur langlífari maki þurft að fá heimild barna skammlífari maka til setu í óskiptu búi, nema gengið hafi verið frá því í erfðaskrá á milli hjónanna, þá þarf ekki leyfi fjárráða barna skammlífari maka, sem ekki eru börn langlífari maka.“

Þótt kaupmálar fyrir síðari hjónabönd séu ekki ætlaðir til að vernda rétt erfingja, mælir Pétur Steinn þó oft með því að fólk sem er eldri en 50+ og í þessari stöðu, geri erfðarskrá samhliða. Þá segir hann að hægt sé að útfæra kaupmála þannig að eignir verði að hjúskpareign við andlát maka, þar sem hefðbundin réttindi eftirlifandi maka gilda.Vísir/Vilhelm

Erfðaskrá samhliða kaupmála

Þegar kaupmáli er ræddur hjá fólki eftir fimmtugt eða á efri árum, er erfitt að ræða málin án þess að erfðamálin komi til tals.

„Enda hef ég talað fyrir því við skjólstæðinga að fólk geri erfðaskrá samhliða því að ganga frá kaupmálum.“

Þó þannig að fólk átti sig á því að kaupmáli og erfðaskrá er ekki samtvinnaðir samningar.

„Kaupmáli snýst alltaf um það að fólk er að tryggja fjáreign sína sem séreignir. Kaupmálar eru oftast gerðir þar sem fjáreignarstaða fólk sem er að ganga í hjónaband kann að vera mjög ólík. Annar aðilinn á töluvert meiri eignir en hinn.“

Stundum séu séreignir líka tilgreindar á einstakling, áður en til hjúskapar kemur.

„Segjum sem svo að einstaklingur erfir jörð frá frænku sinni sem átti enga aðra lögerfingja. Í þessari erfðaskrá frænkunnar er kveðið á um að jörðin eigi að vera séreign viðkomandi. Þetta þýðir þá að ef gengið er í hjónaband, er ákvæði um séreign viðkomandi þegar til staðar. Um þessa séreign þarf ekki að gera kaupmála því erfðaskráin gildir. Ef fólk er að gera kaupmála sín á milli, mæli ég samt með því að tilgreina þessa séreign líka þar. Það er í góðu lagi.“

En er fólk þá að gera kaupmála til að tryggja sína erfingja?

Nei alls ekki. Kaupmálar koma í raun erfingjunum ekkert við enda ráða hjón sínu fé í lifanda lífi. 

Fólk á því ekkert að vera að hugsa um erfingjana í þessu samhengi.

 Hins vegar getur verið gott að gera erfðaskrá samhliða, til dæmis til að tryggja réttindi eftirlifandi maka við andlát þess skammlífari, svo sem að það sé vilji skammlífari maka að langlífari maki sitji í óskiptu búi.“

Getur það verið gott að gera kaupmála til að koma í veg fyrir að einhverjar skuldir, til dæmis tengdar áhættusömum rekstri, verði ekki að ábyrgð makans til dæmis við andlát?

„Nei það þarf ekki kaupmála til að koma í veg fyrir slíkt, því meginreglan við innheimtu er að maki á ekki að gjalda fyrir vanskil hins. Þannig að þótt annar aðilinn skuldi fyrir hjónaband, á hinn aðilinn ekki að vera undir. Ef aðili fer í gjaldþrot á það ekki að hafa áhrif á makannog skráning séreignar í kaupmála þarf því ekki til að koma í veg fyrir slíkt,“ segir Pétur Steinn en bætir við:

„Eina lögbundna undantekningin á makaábyrg eru skattar. Ábyrgð á skattaskuldum er til staðar og hverfur ekki endilega við andlát“

Þá segir Pétur Steinn að þinglýsa beri kaupmálum á þá fasteign sem telst séreign annars aðilans.

„Þar sem kaupmálar eru oft gerðir í kringum einhverja fasteign, erkaupmálum þinglýst á fasteignina sjálfa. Þar með er kaupmálinn alltaf sýnilegur og tilvísunin um séreignarskiptin samkvæmt kaupmálanum mjög skýr.“

Pétur Steinn segir mikilvægt að fólk hafi í huga að það hafi fullan rétt á að ráðstafa sínum fjármunum í lifanda lífi. Fólk eigi því ekkert að vera að hugsa um erfingjana í samhengi þess að gera kaupmála eða aðrar ráðstafanir varðandi sína fjármuni. Kaupmálar fólks sem er eldri en fimmtugt, eru oftast gerðir í kringum fasteignir eða hlutabréfaeign.Vísir/Vilhelm

Gryfjur til að forðast

Þótt fólk gangi auðvitað frá kaupmálum eins skilmerkilega og vel og það mögulega getur, eru sumar gryfjur þó algengari en aðrar.

Sem geta þá ógilt kaupmála.

„Algengast er að fólk skráir ekki kaupmálann hjá sýslumanni. En kaupmáli sem er til dæmis geymdur í geymsluhólfi eða peningaskáp, gildir ekki. Það er lögbundið að skrá hann svo hann verði gildur“

Annað er síðan frágangurinn.

„Þar er algengast að mínu viti að til dæmis sé vottunin ekki gild, því það hefur farist fyrir að taka fram að það sé verið að votta kaupmála. Eða að viðkomandi aðili sem vottar, sé ekki staðfestingarhæfur samkvæmt réttarfarslögum, eins og það er orðað í lögunum.“

Nokkur dómsmál sýni líka dæmi um aðrar flækjur sem geta komið upp.

„Í dæmaskyni getum við nefnt ef að jörð er tilgreind í kaupmála sem séreign annars aðilans í hjónabandi. Síðan við skilnað telur hinn aðilinn sig eiga nokkuð í þeirri eign enda hafi hann komið að uppbyggingu eignarinnar til margra ára og þannig stuðlað að því að gera þessa séreign makans mun verðmætari. Jafnvel lagt verulega fjármuni í eignina. Þetta er dæmi sem getur komið upp ef kaupmálar eru ekki nægjanlega skýrir að þessu leyti og í svona málum er ekki óalgengt að úrskurða þurfi um fyrir dómstólum.“

Pétur Steinn segir svona mál ekkert ósvipuð málum sem hafa komið upp, þar sem meta þarf framlag annars aðilans sem þó var tekjulægri í hjónabandi.

„Það var meira um þetta áður fyrr og dómafordæmi þar um þegar t.d. konur voru meira heimavinnandi og meta þurfti þeirra framlag sérstaklega.“

Annað sem Pétur Steinn segir gott fyrir fólk að hafa í huga er að uppfæra kaupmála og passa þá sérstaklega upp á að nýjasta skjalið sé skráð hjá sýslumanni.

Eins og einnig gildir um erfðaskrár.

„Því það er alltaf nýjasta skjalið sem skráð er, sem gildir. Í nýju skjali á að koma fram setning um að fyrri kaupmálar falli úr gildi við skráningu nýs kaupmála. Þannig er tryggt að enginn vafi er á hvaða kaupmáli er gildur hverju sinni.“

Það sem Pétur Steinn segir oftar en ekki trufla hjón við gerð kaupmála á efri árum eða þegar gengið er í síðari hjónabönd, séu lögerfingjarnir.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst uppkomin börn oft ansi frek til fjárins og það hugnast mér illa. 

Því uppkomin börn hafa engan rétt til að vera með nokkur afskipti af því hvernig foreldrar ráðstafa sínu fé í lifanda lífi og foreldrar eiga ekkert að vera að velta því fyrir sér hversu mikið börnin þeirra erfa,“ 

segir Pétur Steinn og nefnir dæmi:

„Þótt pabbi einhvers erfingja byggi upp fyrirtæki og viðkomandi erfingi vinni hjá því alla tíð, er ekkert sem segir að viðkomandi erfingi hafi nokkurn rétt á að erfa meira eða hafi rétt til að skipta sér af því hvernig pabbinn ráðstafar sínum eignum í lifanda lífi. Það hvernig fólk ráðstafar sínum eignum í lifandi lífi er alfarið þeirra mál.“


Tengdar fréttir

Erfðamálin: Hægt að komast undan skuldum og ábyrgðum lána með opinberum skiptum

„Með því að fara með dánarbú í opinber skipti eru lögerfingjar í raun að lýsa því yfir að þeir ætla ekki að taka ábyrgð á skuldum hins látna, hvorki núna né til framtíðar,“ segir Pétur Steinn Guðmundsson lögmaður hjá Deloitte Legal og sérfræðingur í skattamálum meðal annars þegar erfðamálin eru rædd.

Framhald: „Málið er að mig langar ekki til að deyja“

„Málið er að mig langar ekki til að deyja. Ef þetta er einhver sofandi risi, þá er ég ekki að fara að láta pota í hann og mögulega vekja,“ segir dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson, íþróttagarpur, sauðfjárbóndi og skólastjóri, til útskýringar á því að það sé víst hægt að skoða það eitthvað sérstaklega, hvers vegna krabbameinið er ekkert að láta á sér kræla lengur.

50+ : Algengustu mistök hjóna

Það er margt öðruvísi í lífinu eftir fimmtugt. Flestir búnir að koma sér nokkuð vel fyrir, vita fyrir hvað þau standa og nokkuð upplýst um hvar helstu áherslurnar liggja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×