Enski boltinn

Tuchel skrifaði undir samninginn fyrir átta dögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Tuchel verður þriðji útlendingurinn sem þjálfar enska fótboltalandslið karla.
Thomas Tuchel verður þriðji útlendingurinn sem þjálfar enska fótboltalandslið karla. Getty/Peter Kneffel

Enska knattspyrnusambandið hefur nú staðfest það að Þjóðverjinn Thomas Tuchel taki við sem nýr landsliðsþjálfari þegar Þjóðadeildinni lýkur.

Það kemur þó ekki fram hversu langur samningurinn er en samkvæmt upplýsingum Fabrizio Romano þá er hann fram yfir heimsmeistarakeppnina 2026.

Tuchel tekur við af Gareth Southgate en Lee Carsley hefur stýrt enska landsliðinu á meðan sambandið leitaði að nýjum þjálfara.

Það kemur aftur á móti fram í frétt enska sambandsins að Tuchel skrifaði undir samninginn fyrir átta dögum eða 8. október.

Það var fyrir leiki enska landsliðsins á móti Grikklandi og Finnlandi en sambandið ákvað að bíða með að gefa þetta út þar til í dag.

Erlendir fréttamiðlar voru þó flestir búnir að fá það staðfest í gær að Tuchel tæki við.

Anthony Barry verður aðstoðarmaður hans. Þeir unnu saman bæði hjá Chelsea og Bayern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×