Bíó og sjónvarp

Frum­sýning á Vísi: Fyrsta stiklan úr Svörtu söndum 2

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Leikstjórinn Baldvin Z. ásamt Aldísi Amah Hamilton sem fer með eitt af aðalhlutverkum í Svörtu söndum.
Leikstjórinn Baldvin Z. ásamt Aldísi Amah Hamilton sem fer með eitt af aðalhlutverkum í Svörtu söndum. Eva Rut Hjaltadóttir

Fyrsta stiklan úr annarri seríu af Svörtu söndum sem sýnd verður á Stöð 2 í haust er komin í loftið á Vísi. Um er að ræða beint framhald af fyrri þáttaröð. Þráðurinn verður tekinn upp fimmtán mánuðum eftir atburðina á Svörtu söndum sem þjóðin fylgdist æsispennt með.

Í fyrstu seríu var fjallað um dularfullt dauðsfall ferðamanns á Íslandi. Þegar unga lögreglukonan Aníta byrjar að rannsaka málið flækist hún inn í mun stærra mál sem teygir anga sína mörg ár aftur í tímann. Þáttaröðin var framleidd af Glassriver og sýnd á Stöð 2 og er hið sama uppi á teningnum nú.

Eitt heildstætt verk

Fyrri þáttaröðin var sýnd á Stöð 2 fyrir tveimur árum síðan. Þáttaröðin vakti gríðarlega athygli og fór í dreifingu víðsvegar um heim.

Leikstjórinn Baldvin Z segir í samtali við Vísi mörgum spurningum enn ósvarað í söguþræði þáttanna. Hann segir að Svörtu sandar 1 og 2 séu eitt heildstætt verk.

„Fyrir þá sem horfðu á seríu eitt, þá er mörgum spurningum enn ósvarað sem eru í raun og veru að fara vera viðfangsefni seríu tvö. Þau sem þekkja seríu eitt þau vita nákvæmlega hvað ég er að tala um.“

Baldvin segir að með seinni seríunni verði sögunni því lokað. Hann segir hlæjandi að það hafi ekki kitlað hann að halda endanum opnum í þetta skiptið svo hægt væri halda áfram með Svörtu sanda til eilífðar nóns. Það séu heilmikil vísindi að gefa ekki of mikið upp í stiklunni.

„En allt sem kemur þar fram verður gefið upp í fyrsta þætti. Þannig hún gefur í rauninni ekki mikið upp og ef eitthvað er þá er mun meira af óvæntum sögubeygjum í þessari seríu heldur en í síðustu.“

Fyrsti þáttur fer í loftið á Stöð 2 þann 6. október. Baldvin segist vilja hvetja alla sem enn eigi eftir að sjá seríu eitt til þess að láta verða af því. „Og þau hin sem eru búin að sjá hana þau ættu að horfa aftur!“

Hægt er að horfa á fyrstu seríu af Svörtu söndum á streymisveitu Stöð 2+.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×