En sá hópur sem telst til samlokukynslóðarinnar (e. Sandwich Generation) er sá hópur fólks sem er bæði að hugsa um foreldra og börn.
Í þessum hópi teljast því einstaklingar sem enn eru með börn á sínum snærum á heimilinu, þótt þau séu oftast komin á unglingsstigið, í framhaldsskóla eða í háskóla.
Á sama tíma hafa orðið einhvers konar breytingar í lífi foreldra þessa hóps. Oft heilsufarslegar breytingar sem einfaldlega kalla á að vegna veikinda, tímabundinna eða til langstíma, þarf nú alla upp á dekk: Formlegt umönnunarferli með foreldri er hafið.
Gífurlegt álag getur myndast í þessum aðstæðum. Enda sýna rannsóknir að fólk sem telst til samlokukynslóðarinnar missir að jafnaði um hálftíma af góðum svefni á nóttunni. Því streitan verður svo viðvarandi. Hár blóðþrýstingur, áunnin sykursýki, þunglyndi eru líka sagðir of algengir fylgikvillar. Svo ekki sé talað um ýmiss áhrif breytingaskeiðsins, sem hvorki spyr um aðstæður né annað stress.
Að átta sig á því hvers konar álag og afleiðingar þessar aðstæður geta haft, er lykilatriði. Því jú, við erum á endanum mannleg og það að standa sig frábærlega í vinnu, frábærlega sem foreldri og síðan frábærlega sem umönnunaraðili foreldris….. tja; Þetta getur reynt á!
En hér eru nokkur góð ráð sem geta hjálpað:
1. Slakaðu aðeins á kröfunum til þín
Oft spennumst við upp af álagi vegna þess einfaldlega að við gerum svo miklar kröfur til okkar sjálfra. Ætlum einfaldlega að standa okkur svo vel á öllum vígstöðvum en erum við það að kikna. Fyrsta góða ráðið er að horfa með réttum augum á aðstæðurnar: Hverjar eru þær og hvað er í þínu valdi að gera? Því þú getur ekki verið fullkomin/n á öllum vígstöðvum. Nema að brenna þá bara út á endanum sjálf/ur eða missa þig.
2. Úthlutaðu verkefnum, deildu álagi
Við þurfum líka að horfa svolítið á fjölskylduna sem eitt lið. Vissulega koma oft upp krefjandi aðstæður þar sem reynir meira á umönnun eins í systkinahóps, frekar en annars og svo framvegis. Oft jafnvel þannig að innan systkinahópa ríkir ekki jafnvægi þegar kemur að foreldraumönnuninni.
Í stað þess að pirra þig á því hvort þessi eða hinn í fjölskyldunni ætti að gera eitthvað meira, oftar eða öðruvísi, er gott að horfa til þeirra sem standa þér næst og geta mögulega létt undir álaginu. Oft er þetta makinn og elstu börnin. Einhver í nærumhverfinu sem þú treystir þér til að ræða málin í góðu og reyna að ná lendingu í að skipta með ykkur verkefnum og dreifa álaginu þannig.
Alltof oft aukum við á okkar eigið álag einfaldlega vegna þess að við biðjum ekki um hjálp.
3. Segðu frá…
Samlokukynslóðin ólst upp við orðatiltækið: Að bera harm sinn í hljóði.
Staðreyndin er hins vegar sú að eitt af því sem getur hjálpað mikið er að geta rætt við einhvern sem við treystum um hvernig okkur líður. Oft jafnvel frekar við góðan vin eða vinkonu, ekki aðeins makann.
Ef vanlíðan er orðin viðvarandi, er líka mikilvægt að leita sér aðstoðar hjá fagaðila. Lækni eða sálfræðingi.
4. Þinn tími, þín stund, þín sjálfsrækt
Að eiga börn, þótt þau teljist nánast uppkomin, tekur tíma og orku. Alls kyns mál koma upp og öll viljum við þó standa okkur í foreldrahlutverkinu. Þegar umönnun foreldris og jafnvel ótti vegna veikinda foreldris bætist við, erum við gjörn á að gleyma einni manneskju sérstaklega: Okkur sjálfum.
Það sem skiptir því miklu máli er að huga að okkar eigin sjálfrækt. Það hvernig við gerum það getur verið á mismunandi hátt. Sumir leggja áherslu á áhugamál eða hreyfingu, útivist eða samveru með vinum. Aðrir leggja áherslu á félagsstarf, hugleiðslu eða bænir.
Hver svo sem leiðin þín er, skiptir mestu að þú hugsir vel um sjálfan þig þegar sú staða er komin upp að hlutverkið þitt hefur tvöfaldast. Til viðbótar við aðrar skyldur, svo sem vegna vinnu.
5. Hjónabandið, makasambandið
Þegar álagið er mikið vegna heimilisreksturs, vinnu, barna og síðan foreldra, eiga hjón/pör það til að huga ekki nógu vel að parasambandinu. Sem einmitt nú, þarf á því að halda að styrkja böndin.
Að eiga góðar stundir með makanum, að tala um eitthvað annað en fjölskyldumálin, að hlæja, stunda gott kynlíf, gera eitthvað skemmtilegt. Allt þetta skiptir máli og ekkert síður minna máli en að gefa börnum eða foreldrum tíma og orku.
Áfylling á okkar eigin tanka er eins og endurheðsla símtækja. Við einfaldlega þurfum að stinga oft og reglulega í samband til að hlaða batteríin. Annars er hætta á að andleg og/eða líkamleg heilsa fari að bresta hjá okkur sjálfum, jafnvel langt fyrir aldur fram.