Sport

Alcaraz vann Djokovic annað árið í röð í úr­slita­leik Wimbledon

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Spánverjinn Carlos Alcaraz er bara 21 árs en þegar búinn að vinna fjögur risamót á ferlinum. Dagurinn byrjar vel fyrir Spánverja.
Spánverjinn Carlos Alcaraz er bara 21 árs en þegar búinn að vinna fjögur risamót á ferlinum. Dagurinn byrjar vel fyrir Spánverja. Getty/Clive Brunskill

Spánverjinn Carlos Alcaraz er Wimbledon meistari í tennis annað árið í röð eftir frekar sannfærandi sigur á serbnesku goðsögninni Novak Djokovic í úrslitaleiknum í dag.

Djokovic átti annað árið í röð möguleika á jafna met Roger Federer yfir flesta sigra á Wimbledon en sá svissneski, sem vann Wimbledon mótið átta sinnum á sínum ferli, á metið áfram.

Alcaraz vann Djokovic líka í úrslitaleik sama móts í fyrra en þá 3-2. Nú voru yfirburðir hans mun meiri. Hann vann leikinn í þremur settum. Síðasta settið var jafnt en ekki tvö þau fyrstu.

Þetta er fjórði sigur hins 21 árs gamla Alcaraz á risamóti og annar sigur hans á risamóti á árinu 2024. Hann vann einnig Opna franska meistaramótið fyrr í sumar.

Alcaraz tók frumkvæðið strax frá byrjun leiksins. Hann vann tvö fyrstu settin 6-2 og 6-2 og útlitið því svart fyrir Serbann.

Djokovic byrjaði betur í þriðja settinu en Alcaraz átti möguleika á að klára hana strax. Það tókst ekki og því varð að framlengja settið.

Þar hafði Alcaraz betur 7-4 og vann því samanlagt 3-0.

Úrslitin voru 6-2, 6-2 og 7-6 (7-4).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×