„Ég dýrka þetta konsept sem Til í allt er. Fyrsta lagið kom út fyrir fjórtán árum síðan, þannig þetta spannar nánast allan minn feril og hefur fylgt mér frá upphafi,“ segir Friðrik í samtali við Vísi. Hann hefur verið duglegur að hita upp fyrir útgáfu lagsins á Tik-Tok og birti meðal annars myndband þar sem sjá mátti Steinda jr. beran að ofan í stúdíóinu.
„Steindi hefur alltaf verið með mér og geggjað að fá hann aftur með mér inn í stúdíóið, geggjuð orka frá honum og geggjaður rappari sem gleymist. Svo er alltaf jafnmikil veisla að vinna með Herra Hnetusmjör sem er að mínu mati einn hæfileikaríkasti tónlistarmaður á Íslandi og ekkert eðlilega góður í sínu fagi.“
Gamla gengið með í för
Líkt og alþjóð veit hefur Friðrik verið einn afkastamesti tónlistarmaður landsins um árabil. Fyrsti hluti lagsins Til í allt kom út árið 2010, söng Friðrik það með Steinda og Ásgeiri Pálma. Síðari hlutinn kom svo út fjórum árum síðar 2014 og voru þeir Bent og Steindi þá í rappinu.
„Svo má alls ekki gleyma því að það eru risastórar fréttir að StopWaitGo þríeykið kemur í framleiðslu á laginu, bræðurnir Ásgeir og Pálmi gerðu fyrstu tvö Til í allt lagið. Þannig að það er gaman að hóa gengið saman aftur og gera þetta bara eins og hefðin segir til um, fylgja og virða verkferla, það er mikilvægt í öllu sem á að ganga vel,“ segir Friðrik.
„Ég er ótrúlega sáttur með niðurstöðuna, ég er búinn að vera gera rólega tónlist undanfarið en mjög gaman að vera kominn aftur í smá partýstuð, hrikalega gaman.“