„Ég og Oddur gerðum þetta lag árið 2021 og höfðum alltaf haft það í rassvassanum bara,“ útskýrir Ragnar Steinn Þórsson sem skipar rafsveitina Númer 3 ásamt Oddi Þórissyni. Þeir félagar höfðu áður gefið út eina smáskífu og eina plötu.
„Okkur fannst lagið ekki alveg við hæfi á plötunni og ætluðum að nota það bara sem gigglag og sjá hvernig þetta færi,“ segir Ragnar. Hann segir Króla, Kristinn Óla Haraldsson hafa haft samband við þá félaga eftir útgáfutónleika þeirra og kíkt í heimsókn.
„Við sýnum honum eitthvað dót og byrjuðum á að sýna honum Bjór. Hann drekkur ekki sjálfur og þess vegna fannst okkur það kannski ekki endilega henta í einhverskonar samstarf en sýndum honum það samt upp á djókið,“ segir Ragnar.
Hann segir þá félaga hafa sýnt Króla ýmis önnur lög sem sveitin er að vinna að. Allt hafi þó komið fyrir ekki.„Síðan sagði hann bara: „Strákar, ég get eiginlega ekki hugsað um neitt annað en fyrsta lagið sem þið sýnduð mér.“
Úr varð að þríeykið kláraði lagið sem kom svo loksins út í gær. Ragnar tekur undir að þetta lag henti sumartímanum vel. Hann segir Númer 3 hafa nóg fyrir stafni og nóg í bígerð en sveitin hitar upp fyrir Jóa Pé og Króla á Græna hattinum á Akureyri um helgina þar sem Bjór verður frumsýnt.