Uppgjör,viðtöl og myndir : FH - ÍBV 28-29 | Elmar neitaði að fara í sumar­frí

Andri Már Eggertsson skrifar
ÍBV fagnar í leikslok.
ÍBV fagnar í leikslok. Vísir/Hulda Margrét

ÍBV vann ótrúlegan eins marks sigur 28-29. Elmar Erlingsson kórónaði stórkostlegan leik með því að gera sigurmarkið en hann skoraði samtals 15 mörk. 

Það tók bæði lið tíma að komast í gang. FH-ingar skoruðu sitt fyrsta mark eftir tæplega fimm mínútur á meðan ÍBV gerði tvö mörk á sjö mínútum. Eftir það fóru hjólin að snúast og leikurinn var hin mesta skemmtun.

Nökkvi Snær Óðinsson skoraði 3 mörk í kvöldVísir/Hulda Margrét

Elmar Erlingsson ætlaði svo sannarlega ekki í sumarfrí og fór á kostum í sóknarleik Eyjamanna. Elmar skoraði sjö af fyrstu átta mörk ÍBV. Hjá FH var Aron Pálmarsson í svipuðum ham og gaf Elmari ekkert eftir. Aron gerði fimm af fyrstu átta mörkum heimamanna og þegar að fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan jöfn 8-8.

Eyjamenn gerðu síðustu þrjú mörkin í fyrri hálfleik og voru yfir í hálfleik 13-14. Elmar fór á kostum í fyrri hálfleik og gerði níu mörk úr þrettán skotum.

Daníel Freyr Andrésson varði 14 skotVísir/Hulda Margrét

Gestirnir úr Vestmannaeyjum byrjuðu síðari hálfleik betur. Eftir að hafa endað fyrri hálfleik vel var augnablikið með þeim og þegar sjö mínútur voru liðnar af síðari hálfleik neyddist  Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, til þess að taka leikhlé í stöðunni 15-19.

Arnór Viðarsson fagnaði sigrinumVísir/Hulda Margrét

Heimamenn komu til baka og jöfnuðu 25-25 þegar að tíu mínútur voru eftir og lokamínúturnar voru æsispennandi.

Þegar innan við mínúta var staðan jöfn 28-28 og FH var í sókn. Jóhannes Berg Andrason lét verja frá sér og ÍBV fékk boltann þegar 27 sekúndur voru eftir. Elmar Erlingsson skoraði en það voru nokkrar sekúndur eftir sem gaf Símoni Michael Guðjónssyni tækifæri til að jafna en Pavel Miskevich varði frá honum.

Petar Jokanovic og Elmar Erlingsson í faðma Vísir/Hulda Margrét

ÍBV vann eins marks sigur 28-29. Staðan í einvíginu er 2-1 en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn.

Það var mikið fagnað á parketinu eftir leikVísir/Hulda Margrét

Atvik leiksins

Síðustu 30 sekúndurnar voru ótrúlegar. Elmar komst á milli eitt og tvö og skoraði en það voru nokkrar sekúndur eftir af klukkunni og FH tóku hraða miðju og Símon Michael fékk gott færi til þess að jafna en Pavel Miskevich varði frá honum.

Stjörnur og skúrkar

Elmar Erlingsson var maður leiksins. Elmar fór á kostum og gerði sjö af fyrstu átta mörkum Eyjamanna. Hann endaði með 15 mörk og fimmtánda mark Elmars reyndist sigurmarkið.

Pavel Miskevich, markmaður ÍBV, átti einnig mikinn þátt í því að ÍBV vann leikinn. Á síðustu mínútunni varði Pavel tvo bolta sem reyndist ansi dýrmæt. Fyrst frá Jóhannesi Berg og síðan frá Símoni í blálokin.

Eins flottur og Símon var í leiknum þá fékk hann gott tækifæri til þess að jafna á síðustu sekúndum leiksins en skot hans var ekki gott og Pavel varði frá honum. 

Dómararnir

Dómarar leiksins voru Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson. Það var mikill hiti í leiknum og bæði lið létu finna mikið fyrir sér. Dómararnir höfðu góða stjórn á öllu því sem gerðist og leikurinn var vel dæmdur.

Dómararnir komust síðan að hárréttri niðurstöðu þegar Jakob Martin Ásgeirsson fékk beint rautt spjald þegar hann fór í andlitið á Elmari Erlingssyni sem var á fullri ferð 

Stemning og umgjörð

Það var fagnað vel og innilega í stúkunniVísir/Hulda Margrét

Það var tryllt stemning í Krikanum. Stuðningsmannasveitir beggja liða létu vel í sér heyra og FH-ingar buðu upp á ljósashow í hæsta gæðaflokki þar sem reykvélin vann fyrir kaupinu.

Eins og gegn Haukum á Ásvöllum hentu stuðningsmenn ÍBV hentu klósettpappírinn inn á völlinn þegar að FH fór í sína fyrst sókn. Stöðva þurfti leikinn og starfsmenn þurftu að fjarlægja pappírinn sem tók tíma þar sem þetta voru þó nokkrar rúllur. Stuðningsmenn FH bauluðu en undirrituðum finnst þetta mjög skemmtilegt. Erfitt að vera á móti skítkasti sem hvorki meiðir né særir.

„Verður handboltaveisla í næsta leik“

Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, ræddi við dómarann í leik kvöldsinsVísir/Hulda Margrét

Magnús Stefánsson, þjálfari ÍBV, var afar ánægður með sigurinn og þá staðreynd að ÍBV hafi ekki fallið úr leik í kvöld.

„Við tókum leikhlé og Elmar steig upp og kláraði þetta. Pavel var síðan með mikilvægustu vörslu leiksins í lokin. Leikurinn í heild sinni hefur sennilega verið frábær fyrir áhorfendur. Án efa var þetta besta auglýsing fyrir íslenskan handbolta að þessi tvö lið skulu vera að mætast,“ sagði Magnús í samtali við Vísi eftir leik.

FH þurfti aðeins einn sigur í viðbót til þess að slá ÍBV út í undanúrslitum og Magnús var ánægður með karakterinn í sínu liði.

„Við vorum bara eins og algjörir meistarar. Það var engan bilbug að finna á mínum mönnum eftir leik eitt eða tvö. Þeir eru með geggjað hugarfar þessir peyjar og ég vill hrósa þeim fyrir geggjaða nálgun á verkefnið.“

Magnús hrósaði Elmari Erlingssyni sem fór á kostum og skoraði fimmtán mörk.

„Elmar er ágætur í handbolta og leiðist ekkert að skora mörk og finna samherja. Elmar var frábær í dag og spilaði góða vörn og lagði sóknarleikinn okkar vel upp. Það er ekkert skrítið að svona leikmaður sé að fara út að spila og ég er mjög stoltur af honum.“

Næsti leikur í einvíginu verður á miðvikudaginn í Vestmannaeyjum þar sem ÍBV verður að vinna til þess að knýja fram oddaleik í Kaplakrika.

„Það verður alveg frábært. Ég get ekki beðið og strákarnir geta ekki beðið. Þetta er það skemmtilegasta sem við gerum og að spila á móti FH er geðveikt og það eru frábærir áhorfendur sem koma frá þeim og styðja sitt lið. Áhorfendur okkar voru líka frábærir og þetta verður handboltaveisla í næsta leik,“ sagði Magnús Stefánsson að lokum.


Tengdar fréttir

„Ég skaut bara á markið og vonaði það besta“

ÍBV vann ótrúlegan eins marks sigur gegn FH 28-29 í Kaplakrika. Elmar Erlingsson, leikmaður ÍBV, var hetja Eyjamanna þar sem hann gerði sigurmarkið en FH er 2-1 yfir í einvíginu og því var sigur Eyjamanna lífsnauðsynlegur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira