Íslenski boltinn

Tíu bestu liðin (1984-2023): Breiða­blik 2022 | Há­flug á vængjum Hrafnsins

Breiðablik missti af Íslandsmeistaratitlinum 2021 á grátlegan hátt en kom öflugt til baka og vann titilinn með talsverðum yfirburðum árið eftir. Blikar, með Ísak Snæ Þorvaldsson í feiknaformi, byrjuðu tímabilið af gríðarlegum krafti, unnu fyrstu átta leiki sína og voru alltaf fremstir í kapphlaupinu um titilinn. Þá gerðu þeir sig gildandi í Evrópukeppni.

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslandsmeistaralið Breiðabliks 2021 var að stórum hluta byggt upp á uppöldum leikmönnum. Oliver Sigurjónsson, Kristinn Steindórsson, Gísli Eyjólfsson, Viktor Örn Margeirsson og Höskuldur Gunnlaugsson eru meðal þeirra sem hafa komið úr blómlegu yngri flokka starfi Breiðabliks. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Breiðablik missti af Íslandsmeistaratitlinum 2021 á grátlegan hátt en kom öflugt til baka og vann titilinn með talsverðum yfirburðum árið eftir. Blikar, með Ísak Snæ Þorvaldsson í feiknaformi, byrjuðu tímabilið af gríðarlegum krafti, unnu fyrstu átta leiki sína og voru alltaf fremstir í kapphlaupinu um titilinn. Þá gerðu þeir sig gildandi í Evrópukeppni.

Breiðablik 2022 lenti í 10. sæti í kjöri Vísis á bestu fótboltaliðum Íslands síðustu fjörutíu ár (1984-2023).

Þrátt fyrir að hafa skilað tveimur silfurverðlaunum á tveimur árum lét Breiðablik Ágúst Gylfason fara eftir tímabilið 2019. Við starfi hans tók Óskar Hrafn Þorvaldsson sem hafði komið Gróttu upp um tvær deildir á tveimur árum. Óskar var fyrst þekktur sem leikmaður, síðan sem afar hreinskiptinn fjölmiðlamaður áður en hann smitaðist aftur af þjálfarabakteríunni. Haustið 2019 var hann heitasti nýi þjálfari landsins og Blikar tóku sénsinn á honum. Og það borgaði sig. 

grafík/sara

Fyrsta tímabil Óskars við stjórnvölinn hjá Breiðabliki (2020) var aðlögunartímabil en á því næsta voru Blikar klárir í titilbaráttu. Og þeir voru hársbreidd frá því að verða Íslandsmeistarar í annað sinn. Ef tvö víti í Frostaskjóli og Kaplakrika hefðu farið öðruvísi. En ef að sé og mundi, átján fætur á einum hundi eins og maðurinn sem gerði Breiðablik að Íslandsmeisturum 2010, Ólafur Kristjánsson, sagði.

Nokkrar breytingar urðu á Breiðabliksliðinu fyrir tímabilið 2022. En mestu skipti koma tveggja manna sem fátt benti til að myndu skipta sköpum. Annars vegar Ísaks frá ÍA og hins vegar Dags Dan Þórhallssonar frá Fylki. Ísak hafði augljóslega margt til brunns að bera en var aldrei í nógu góðu formi til að fullnýta hæfileika sína. Dagur hafði aftur á móti ekki látið ljós sitt skína í efstu deild. Það breyttist tímabilið 2022 og þeir skiptu með sér verkum.

grafík/sara

Ísak byrjaði tímabilið af fáránlega miklum krafti, í nýrri stöðu á vinstri kantinum. Hann skoraði tvennu í þremur af fyrstu fjórum deildarleikjum Breiðabliks og eftir átta umferðir voru mörkin orðin tíu talsins. Og það sem mikilvægast var, Blikar voru með fullt hús stiga, 24 stig af 24 mögulegum, og sjö stiga forskot. Á meðan höktu Víkingar talsvert í titilvörn sinni og töpuðu þremur af fyrstu sjö leikjum sínum.

Breiðablik var alltaf frems tí kapphlaupinu um titilinn en eftir tap fyrir KA á Akureyri í næstsíðustu umferð kom smá „ertu að segja mér að það sé möguleiki?“ Möguleikinn var samt álíka mikill og sénsinn sem Lloyd Christmas átti í Molly Swanson. Munurinn á toppnum var enn sex stig og Blikar stóðu fast í lappirnar á lokasprettinum. Þeir unnu næstu þrjá leiki og titilinn var í höfn eftir að Víkingar töpuðu fyrir Stjörnumönnum í Garðabænum. Breiðablik tapaði næsta leik fyrir KR en vann svo Val, 2-5, á útivelli þar sem sem Dagur Dan skoraði þrennu. Hlutverk hans í Blikaliðinu varð alltaf stærra og stærra og hann var besti leikmaður þess á lokasprettinum. 

GRAFÍK/SARA

Hetjurnar voru samt margar. Anton Ari Einarsson og Viktor Örn Margeirsson áttu sitt besta tímabil, Damir Muminovic batt vörnina saman, Gísli Eyjólfsson blómstraði að aðeins breyttu hlutverki, Jason Daði Svanþórsson skoraði ellefu mörk og lagði upp níu, endurreisn Kristins Steindórssonar hélt áfram og svo mætti áfram telja. Og svo var það auðvitað Höskuldur Gunnlaugsson, fyrirliðinn sem spilaði alla leiki í alls konar hlutverkum en var alltaf frábær. 

Þrátt fyrir að Víkingum hafi fundist gaman að skjóta á Blika um að þeir væru brothættir og linir voru þeir allt nema það tímabilið 2022. Tapið í undanúrslitum Mjólkurbikarsins fyrir Víkingi svíður eflaust en brothætt og lin lið vinna ekki Íslandsmót með tíu stiga mun og gera sig gildandi í Evrópukeppni eins og Breiðablik gerði.

Sú var tíðin að spurt var: Hvað er grænt og fellur á haustin? Það spyr enginn lengur að því. Og tímabilið 2022 spurðu andstæðingar Breiðabliks sig hvað þeir gætu gert gegn þessu öfluga liði. En það áttu fæstir svör við því.






×