Heckingbottom stýrði Sheffield United í síðasta sinn þegar liðið steinlá fyrir Burnley, 5-0, í nýliðaslag á laugardaginn. Sheffield United er á botni ensku úrvalsdeildarinnar með einungis fimm stig, fjórum stigum frá öruggu sæti. Sheffield United hefur tapað ellefu af fjórtán leikjum sínum og er með neikvæða markatölu upp á 28 mörk.
Chris Wilder hefur þegar verið ráðinn til að taka við af Heckingbottom, en þetta staðfesti eigandi Sheffield United í dag. Wilder stýrði liðinu áður á árunum 2016-21. Undir hans stjórn endaði Sheffield United í 9. sæti ensku úrvalsdeildarinnar tímabilið 2019-20.
Heckingbottom tók við Sheffield United af Slavisa Jokanovic í nóvember 2021. Hann stýrði liðinu upp í ensku úrvalsdeildina á síðasta tímabili.
Næsti leikur Sheffield United er gegn Liverpool á heimavelli á morgun.