Enski boltinn

Kevin De Bruyne: Þetta er ekki ég

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne meiddist í upphafi tímabils en hann hefur ekki eytt tíma sínum í að semja tónlist með Drake.
Kevin De Bruyne meiddist í upphafi tímabils en hann hefur ekki eytt tíma sínum í að semja tónlist með Drake. Getty/Robbie Jay Barratt

Belgíski knattspyrnumaðurinn Kevin De Bruyne neitar því að hafa komið eitthvað nálægt því að semja nýja lagið hjá kanadíska rapparanum Drake.

Netverjar fóru á mikið flug þegar þeir sáu að „K. De Bruyne“ var skrifaður sem einn af höfundum lagsins „Wick Man“ með Drake.

Manchester City maðurinn hefur lagt upp ófá mörkin en er hann líka öflugur á tónlistarsviðinu?

Á samfélagmiðlum voru mjög margir sannfærðir um það að Drake hafi þarna fengið stoðsendingu frá stoðsendingakóngi ensku úrvalsdeildarinnar síðustu ára.

Svo mikil var umræðan á netinu að De Bruyne sjálfur gat ekki annað en blandað sér í hana.

De Bruyne setti fyrst fram í gríni: „Drake vantaði stoðsendingu,“ en bætti svo við: „Að öllu gríni slepptu. Þetta er ekki ég. Mikill aðdáandi samt,“ skrifaði De Bruyne.

De Bruyne er meiddur og hefur ekki spilað með Manchester City síðan að hann meiddist í upphafi tímabilsins.

Erling Haaland sló líka á létta strengi og sagði að Drake væri ekki sá eini sem vantaði stoðsendingu frá De Bruyne.

De Bruyne er í fjórða sæti yfir flestar stoðsendingar í sögu ensku úrvalsdeildarinnar en alls hefur hann gefið 102 slíkar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×