Enski boltinn

De Zerbi gæti fengið bann fyrir harða gagn­rýni á dómara

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Roberto De Zerbi er ekki mikill aðdáandi enskra dómara.
Roberto De Zerbi er ekki mikill aðdáandi enskra dómara. getty/Steve Bardens

Knattspyrnustjóri Brighton, Roberto De Zerbi, gæti verið á leið í bann vegna ummæla sinna um dómara eftir leikinn gegn Sheffield United í ensku úrvalsdeildinni.

De Zerbi dró hvergi af í gagnrýni sinni á dómara eftir leikinn á sunnudaginn. Honum sagðist meðal annars vera illa við meirihluta dómara á Englandi.

„Ég er hreinskilinn, mér líkar ekki við 80 prósent allra dómara á Englandi. Þetta er ekki nýtt, mér líkar ekki vel við þá,“ sagði Ítalinn. 

„Vegna hegðunar þeirra, mér líkar ekki hegðun þeirra á vellinum,“ svaraði De Zerbi er hann var spurður af hverju honum væri svona í nöp við enska dómara.

Enskir fjölmiðlar greina frá því að enska knattspyrnusambandið sé með ummæli De Zerbis til skoðunar. 

Sumum innan dómaranefndarinnar finnst ítalski stjórinn hafa farið einum of oft yfir strikið í gagnrýni sinni á dómara og aðgerða sé þörf. De Zerbi gæti því fengið sekt eða jafnvel leikbann. Hann fór tvívegis í eins leiks bann á síðasta tímabili fyrir dómaratuð.

Brighton gerði 1-1 jafntefli við Sheffield United á sunnudaginn. Brighton komst yfir með marki Simons Adingra á 6. mínútu en Sheffield United jafnaði á 74. mínútu þegar Adam Webster setti boltann í eigið mark. Skömmu áður var Mahmoud Dahoud, leikmaður Mávanna, rekinn af velli.

Brighton er í 8. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með nítján stig eftir tólf umferðir. Strákarnir hans De Zerbis eru án sigurs í síðustu sex deildarleikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×