Enski boltinn

Richarlison á leið í að­gerð á mjöðm: Hefði ekki valið mig heldur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Richarlison hefur verið að glíma við pirrandi mjaðmarmeiðsli og hefur ekki náð sér á strik með Tottenham.
Richarlison hefur verið að glíma við pirrandi mjaðmarmeiðsli og hefur ekki náð sér á strik með Tottenham. Getty/Sebastian Frej

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Richarlison þarf að fara í aðgerð á næstunni vegna mjaðmarmeiðsla sinna.

Richarlison staðfesti þetta við ESPN í Brasilíu en hann var ónotaður varamaður í leik Tottenham og Chelsea í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi.

Brasilíski framherjinn hefur ekki náð sér á strik og meiðslin hafa þar mikið um að segja.

„Síðustu mánuðir hafa ekki verið auðveldir fyrir mig,“ sagði Richarlison við ESPN Brasil.

„Ég hef verið í vandræðum með heilsuna. Ég ræddi við læknana og ég fer fljótlega í aðgerð á mjöðm,“ sagði Richarlison.

„Ég hef verið þjáður. Ég hef verið að berjast um sæti mitt í bæði landsliðinu og félagsliðinu undanfarna átta mánuði og hef ekki hugsað nógu vel um mig,“ sagði Richarlison.

„Ég held að það sé best fyrir mig að hvíla og hætta um tíma. Ég mun hugsa um það í nokkra daga og tek síðan þá ákvörðun sem er best fyrir mig,“ sagði Richarlison.

Richarlison komst ekki í nýjasta landsliðshóp Brasilímanna.

„Auðvitað var ég leiður yfir því en ég skil Diniz (Landsliðsþjálfari Brasilíu). Ef ég væri hann þá hefði ég ekki valið mig heldur. Ég hef ekki verið að spila góðan fótbolta. Ég hef bætt mig í síðustu leikjum en á enn langa leið fyrir höndum áður en ég kemst í landsliðstreyjuna aftur,“ sagði Richarlison.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×