Enski boltinn

Diaz á­kveði sjálfur hvort hann geti spilað eftir að föður hans var rænt

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Jürgen Klopp ætlar ekki að neyða Luis Diaz til að spila á sunnudaginn.
Jürgen Klopp ætlar ekki að neyða Luis Diaz til að spila á sunnudaginn. Matthias Hangst/Getty Images

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, segir að kólumbíski kantmaðurinn Luis Diaz fái sjálfur að ákveða hvort hann treysti sér til að spila í ensku úrvalsdeildinni um helgina eftir að föður hans var rænt í heimalandi þeirra.

Um síðustu helgi bárust fréttir af því að foreldrum Luis Diaz hafði verið rænt í heimalandi sínu, Kólumbíu. Stuttu síðar var greint frá því að móður hans hafði verið sleppt, en faðir hans er enn í haldi mannræningjanna.

Í dag var þó greint frá því að skæruliðasamtökin sem rændu foreldrum Diaz ætli sér að sleppa föður leikmannsins sem fyrst.

Eins og gefur að skilja hefur atburðarrásin tekið á fyrir leikmanninn og á blaðamannafundi fyrir leiki helgarinnar í dag sagði Jürgen Klopp að Diaz verði að fá að ákveða það sjálfur hvort hann treysti sér að spila þegar Liverpool heimsækir Luton á sunnudaginn.

„Við munum bara bíða og sjá hvernig hann verður og hvernig honum líður,“ sagði Klopp um Diaz á blaðamannafundi dagsins. „Við munum ekki neyða hann til að spila. Það er ekki í okkar höndum,“ bætti Þjóðverjinn við.

„Ef honum líður vel þá mun hann æfa með okkur. Þegar hann er með strákunum þá er hann nokkuð góður, en maður sér það á honum að hann er ekki búinn að sofa mikið. Hann æfði með okkur og miðvikudaginn og aftur í gær.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×