Enski boltinn

Við­brögð Klopp við tapi Man. United segja meira en þúsund orð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jürgen Klopp með Erik ten Hag fyrir leik liðanna þeirra í ensku úrvalsdeildinni.
Jürgen Klopp með Erik ten Hag fyrir leik liðanna þeirra í ensku úrvalsdeildinni. Getty/Andrew Powell

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, fékk að vita það á blaðamannafundi eftir sinn leik í enska deildabikarnum í gærkvöldi að Manchester United hafði á sama tíma steinlegið á heimavelli sínum á móti Newcastle.

Manchester United tapaði leiknum 3-0 og hafði nokkrum dögum fyrr tapað líka 3-0 á móti Manchester City á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni. Tvö vandræðaleg töp á heimavelli og sæti knattspyrnustjórans Erik ten Hag hitnar meira og meira með hverju tapinu.

Stuðningsmenn Newcastle sungu hástöfum „Þú verður rekinn í fyrramálið“ til Ten Hag eftir að lið þeirra komst 2-0 yfir í fyrri hálfleiknum. United byrjaði seinni hálfleikinn ágætlega en tókst ekki að minnka muninn. Newcastle náði aftur á móti að skora þriðja markið og gera út um leikinn.

Viðbrögð Klopp við tapi Manchester United liðsins segja þó meira en þúsund orð. Hann fékk að vita úrslitin frá blaðamönnum á fundi sínum með þeim eftir 2-1 sigur á Bournemouth og var því með myndavélarnar á sér.

Klopp gretti sig og og missti út úr sér „úúú“ en það var greinilegt að þetta stóra tap kom honum mikið á óvart. Það má sjá viðbrögð hans hér fyrir neðan.

Klopp hefur verið knattspyrnustjóri Liverpool frá árinu 2015 en á þeim tíma hefur United skipt mörgum sinnum um manninn í stjórastólnum.

Louis van Gaal, José Mourinho, Ole Gunnar Solskjær, Michael Carrick, Ralf Rangnick og loks Erik ten Hag hafa stýrt United á þessum árum og svo gæti farið að nýr maður sé á leiðinni takist hollenska stjóranum ekki að snúa við blaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×